Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2013 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Katrín Jakobsdóttir ræðir menntamál við ungt fólk

Fundur með ungmennum í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna.
Katrín Jakobsdóttir fundar með ungmennum í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna.
Katrín Jakobsdóttir ræðir menntamál við ungt fólk

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra átti í ársbyrjun góðan fund með ráðgjafarhópi umboðsmanns barna en í honum eru ungmenni á aldrinum 13 til 17 ára. Umræðurnar snerust einkum um menntamál og samráð við ungt fólk þegar ákvarðanir eru teknar í þeim málum og öðrum, sem varða þau beint. Þá var rætt um lýðræðisþátttöku ungmenna í skólum og þau töldu nauðsynlegt að fræða ungt fólk betur um lögbundinn rétt þeirra að taka þátt í starfi nemendafélaga í skólum og skólaráðum og virkja betur ungmenni til slíkrar þátttöku. Þá var rætt um mikilvægi umburðarlyndis í skólum, aðgerða til að styrkja góðan skólabrag þar sem virðing væri borinn fyrir margbreytileikanum og mikilvægi aðgerða til að koma í veg fyrir einelti.

Einnig barst talið að fyrirkomulagi  við kennslu, útskrift úr grunnskólum, innritun í framhaldsskóla og fleira og margt kom fram í máli ungmennanna, sem ráðherra og starfsmönnum hans töldu afar gagnlegt að heyra um. Þessi aldurshópur á sér engan sérstakan málsvara eða heildarsamtök, sem stjórnvöld geta leitað til og haft samráð við og á fundinum voru reifaðar ýmsar hugmyndir um hvernig best væri að standa að samráði við ungmenni á þessum aldri um mál sem þau varða.

Ráðherra kvaddi hópinn með þeim orðum að nauðsynlegt væri að eiga áfram samræður við hann og aðra fulltrúa ungs fólks og þakkaði fyrir góðan fund.

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna er ráðgefandi fyrir hann um þau málefni, sem brenna á börnum og ungmennum í samfélaginu. Hópurinn gerir einnig tillögur að verkefnum eða málefnum, sem hann telur að umboðsmaður þurfi að huga að.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira