Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2013 Félagsmálaráðuneytið

Mál nr. 43/2012

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í málinu nr. 43/2012

 

Afsláttur af leigu.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2012, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 6. september 2012, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 23. janúar 2013.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 20. desember 2011, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð C í eigu gagnaðila. Ágreiningur er um afslátt af leigu vegna bilunar í gólfhitakerfi.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi hafi átt rétt á afslætti af leigu vegna óþæginda sem hún hafi þurft að þola vegna bilunar í  gólfhitakerfi.

Í álitsbeiðni kemur fram að ágreiningur hafi orðið vegna gólfhita í íbúðinni. Hitastillingar hafi ekki verið í lagi frá því um 20. maí 2012. Bilunin hafi í upphafi komið fram á þann hátt að gólf hafi verið sjóðandi heitt í stofu svo ekki hafi verið hægt að ganga um gólf eða hvíla fætur á gólfinu við sófa vegna of mikils hita. Álitsbeiðandi hafi lækkað hitann alveg niður en það hafi ekki borið árangur. Álitsbeiðandi segir þetta hafa verið óbærilegt og ekki hægt að nýta stofuna og að þurft hafi að fara inn í önnur herbergi til að kæla sig niður. Þetta hafi valdið álitsbeiðanda miklum óþægindum.

Álitsbeiðandi hafi hringt í gagnaðila í maí og upplýst hann um framangreinda bilun. Gagnaðili hafi í kjölfarið sent mann sem hafi gert við hitastilli. Þá hafi hitinn lækkað lítillega en farið í sama horf síðar. Álitsbeiðandi segist hafa hringt samstundis í gagnaðila og upplýst hann um að viðgerðin hafi ekki dugað til. Þá hafi liðið þrjár vikur þangað til píparinn hafi komið aftur. Píparinn hafi tjáð álitsbeiðanda að það vanti varahlut og sagst ætla að koma á næstunni með hann og gera við bilunina. Í millitíðinni hafi píparinn leyst vandamálið með því að slökkva á hitanum alls staðar í íbúðinni.

Mánuði síðar hafi álitsbeiðandi sent gagnaðila tölvupóst vegna málsins. Gagnaðili hafi þá tjáð álitsbeiðanda að hann hafi talið vandamálið vera leyst en hafi lofað að gera eitthvað í því.

Þetta hafi tekið um þrjá mánuði og þann tíma hafi álitsbeiðandi greitt fulla leigu. Gagnaðili hafi aldreið boðist til að koma til móts við álitsbeiðanda vegna þeirra óþæginda sem hún hafi orðið fyrir. Þegar álitsbeiðandi hafi nefnt við gagnaðila að henni fyndist sanngjarnt að hún greiddi aðeins hálfa leigu fyrir ágústmánuð hafi gagnaðili neitað því og sagt að samningnum yrði rift og gengið á bankaábyrgð sem sett hafi verið til tryggingar ef álitsbeiðandi myndi ekki greiða umsamda leigu.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að rétt sé hjá álitsbeiðanda að bilun hafi orðið í gólfhitakerfi íbúðarinnar. Um leið og vandamálið hafi komið upp hafi gagnaðili sent pípara á staðinn, en hann reki pípulagninga- og verktakafyrirtæki. Þegar pípari hafi skoðað bilunina hafi komið í ljós að varahlut hafi vantað fyrir uppblöndun á hitakerfið. Gagnaðili hafi sent tæknimann til að kaupa varahlut. Þegar pípari hafi ætlað að koma varahlutnum fyrir í gólfhitakerfinu hafi komið í ljós að ekki var um réttan hlut að ræða. Í framhaldi af því hafi verið reynt að finna leiðir til að laga kerfið og loks fór svo að rétta stykkið hafi fundist, en það hafi reynst nauðsynlegt að panta það að utan. Í millitíðinni hafi pípari farið í íbúðina og lokað fyrir gólfhitakerfið svo gólfið væri ekki of heitt.

Um hálfum mánuði eftir eindaga húsaleigunnar hafi gagnaðili haft samband við álitsbeiðanda. Hún hafi krafist þess að fá helmingsafslátt af leigunni. Gagnaðili hafi hafnað þeirri kröfu enda hafi hann gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að gera við umrædda bilun.

Varahluturinn hafi borist og gert hafi verið við bilunina tafarlaust. Álitsbeiðandi hafi síðar greitt vangoldna leigu og sagt húsaleigusamningnum upp.

Gagnaðili hafnar því alfarið að álitsbeiðandi eigi rétt á afslætti eða bótum vegna framangreindrar bilunar. Í 17. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, sé fjallað um ástand á leigðu húsnæði. Gagnaðili segir ljóst að hann hafi sinnt kröfu leigjanda um að ráða bót á biluninni og hafi gert það tafarlaust. Sú töf sem orðið hafi á því að gólfhitakerfið kæmist í lag sé sök birgjans og gagnaðili geti ekki tekið ábyrgð á því. Gagnaðili hafi ekki upplýsingar um það hvort byggingarfulltrúi hafi metið tjón leigjandans, sbr. 4. mgr. 17. gr. húsaleigulaga. Sú niðurstaða hafi ekki verið kynnt gagnaðila.

Í 20. gr. húsaleigulaga sé fjallað um viðhald leiguhúsnæðis. Þar komi fram að sinni leigusali ekki kröfum leigjanda um úrbætur innan tveggja mánaða sé leigjanda heimilt að láta framkvæma viðgerðina á kostnað leigusala og draga kostnaðinn frá leigugreiðslu. Ljóst sé að álitsbeiðandi hafi ekki notfært sér þennan valkost, enda hafi henni verið fullljóst að gagnaðili hafi verið að reyna að ráða bót á biluninni.

Í ljósi framangreinds hafnar gagnaðili kröfum álitsbeiðanda.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 21. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, skal leigusali láta vinna alla viðgerðar- og viðhaldsvinnu fljótt og vel svo að sem minnstri röskun valdi fyrir leigjanda. Leiði viðgerðar- eða viðhaldsvinna á vegum leigusala til verulega skertra afnota eða afnotamissis að mati byggingarfulltrúa skal leigusali bæta leigjanda það með hlutfallslegum afslætti af leigugjaldi eða á annan hátt er aðilar komi sér saman um. Verði aðilar ekki ásáttir um bætur eða afslátt geta þeir leitað álits byggingarfulltrúa, en heimilt er aðilum að bera álit hans undir kærunefnd húsamála.

Álitsbeiðandi krefst afsláttar á leigu vegna óþæginda sem hún hafi orðið fyrir vegna bilunar í gólfhitakerfi. Hafi viðgerð tekið þrjá mánuði. Af hálfu gagnaðila er tímalengdinni ekki mótmælt en byggt á því að hann hafi strax gert allt sem í hans valdi stóð til að gera við gólfhitakerfið. Stykkið sem keypt var til að laga kerfið passaði ekki og þurfti að panta það frá útlöndum. Í millitíðinni hafi verið lokað fyrir gólfhitakerfið.

Kærunefnd telur ljóst að bilunin hafi valdið röskun sem gæti hafa leitt til skertra afnota. Samkvæmt 21. gr. bar álitsbeiðanda að leita til byggingafulltrúa um mat á því. Af þeim sökum liggur ekki fyrir í gögnum málsins hversu skert afnotin hafi verið vegna umræddrar bilunar og möguleg lækkun leigugjalds af þeim sökum. Með vísan til þess er það álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um afslátt af leigu vegna óþæginda sem hún hafi þurft að þola vegna bilunar í  gólfhitakerfi.

Reykjavík, 23. janúar 2013

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Ásmundur Ásmundsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira