Ívilnanasamningur vegna byggingar hátæknifiskvinnslu í Sandgerði
Í dag var undirritaður fjárfestingarsamningur um ívilnanir við Marmeti vegna byggingar hátæknifiskvinnslu í Sandgerði. Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð 609 milljónir, framleiðslugeta verksmiðjunnar verður um 5.000 tonn og gert er ráð fyrir 41 starfsmanni við rekstur vinnslunnar.
„Ég fagna mjög stórhug forsvarsmanna Marmetis og það segir sig sjálft að tilkoma hátæknifiskvinnslu sem veitir 40 manns atvinnu hefur gríðarmikla þýðingu fyrir Sandgerðisbæ og reyndar öll Suðurnesin. Þá fagna ég því sérstaklega að hér er á ferðinni fjárfestingarsamningur um ívilnanir við íslenskt fyrirtæki en þess misskilnings hefur gætt að lögin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og samningar sem gerðir eru á þeim grundvelli standi aðeins erlendum fjárfestum til boða, en svo er að sjálfsögðu ekki eins og undirritunin hér í dag sýnir. Ég treysti því að fleiri slíkir ívilnanasamningar komi í kjölfarið enda eru þeir öflugt verkfæri til að liðka fyrir nýfjárfestingum og uppbyggingu.“ sagði Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við þetta tilefni.
„Samningurinn sem hér er til undirritunar í dag hefur jákvæð áhrif til nýsköpunar og uppbyggingar. Það er mikið fagnaðarefni að fá hingað til Sandgerðis fleiri öflug fiskvinnslufyrirtæki. Fiskvinnslufyrirtækið Marmeti mun hleypa auknum krafti í atvinnuuppbyggingu hér á svæðinu og bæjaryfirvöld lýsa ánægju með að fyrirtækinu hafi verið valinn staður í Sandgerði.“ sagði Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar.
Verksmiðja Marmetis verður búin fullkomnasta hátæknibúnaði til fiskvinnslu sem völ er á og kemur hann allur frá íslenskum framleiðendum. Staðsetning fiskvinnslunnar þykir einkar hentug en hún er í 150 metra fjarlægð frá þeim stað sem Örn KE landar afla sínum og í innan við 70 metra fjarlægð frá Fiskmarkaði Suðurnesja. Þá eru einungis 4 kílómetrar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.