Frumvarp til heildarlaga um stjórn fiskveiða
Með nýju frumvarpi til heildarlaga um stjórn fiskveiða er byggt á þeirri stefnumótun í sjávarútvegi og auðlindamálum sem hefur átt sér stað á starfstíma núverandi ríkisstjórnar, þ.e. samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, skýrslu starfshóps sjávarútvegsráðherra nóvember 2010, tillögum vinnuhóps þáverandi sjávarútvegsráðherra nóvember 2011, skýrslu ráðherranefndar um endurskoðun frumvarps til laga um stjórn fiskveiða janúar 2012 og greinargerð trúnaðarmannahóps fulltrúa stjórnmálaflokkanna í atvinnuveganefnd september 2012. Við undirbúning frumvarpsins hefur auk þess verið litið til þeirra fjölmörgu umsagna sem Alþingi bárust um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða sem ekki urðu útrædd á 139. og 140. löggjafarþingi. Loks hefur verið höfð hliðsjón af tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá (um þjóðareign á auðlindum) og skýrslu auðlindastefnunefndar frá september 2012.
Helstu efnisbreytingar frá fyrra frumvarpi, sem lagt var fram á 140. löggjafarþingi, eru þessar:
- Gert er ráð fyrir verulegu aflamarki í kvótaþing til útleigu á vegum ríkisins en í frumvarpinu kemur fram áætlun til þriggja ára um heimildir skv. 2. flokki. Í kvótaþing um 19.000 þorskígildistonn fiskveiðiárið 2013/14 en tæp 30.000 tonn fiskveiðiárið 2015/16. Hluti af aukningunni er tilfærsla frá byggðakvóta, línuívilnun og skel og rækjubótum en megnið er aflamark sem fengið er með varnalegri tilfærslu frá aflahlutdeildarhöfum, en einnig ber að hafa í huga í þessu sambandi að með því að ráðstafa fastri aflahlutdeild til strandveiða mun hlutur þeirra aukast nokkuð á sömu árum.
- Framsetningu á reglum um framsal aflahlutdeilda er breytt og þær nú tengdar beint við gildistíma nýtingarleyfa en sett í hendur löggjafans og framtíðarinnar að ákveða með framhaldið.
- Mælt er fyrir um 20 ára úthlutun aflahlutdeilda, en ekki er hins vegar mælt fyrir um sjálfkrafa úthlutun hlutdeildanna til 15 ára í senn við upphaf hvers fiskveiðiárs, að liðnum fimm árum frá gildistöku frumvarpsins, verði annað ekki ákveðið. Kveðið er á um að ráðherra skuli, eigi síðar en í desember 2016, leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögunum þar sem mælt verði fyrir um ráðstöfun nýtingarleyfa og aflahlutdeilda að liðnum 20 ára úthlutunartíma. Í bráðabirgðaákvæði við frumvarpið er mælt fyrir um að skipa skuli nefnd eigi síðar en 1. september 2013 sem vinni tillögur og nauðsynlega stefnumótun til undirbúnings þess frumvarps.
- Felld eru brott ákvæði sem voru í 2. mgr. 12. gr. fyrra frumvarps varðandi skerðingu á framseldri aflahlutdeild við flutning og í 3. mgr. 12. gr. varðandi hámark á framsali aflahlutdeildar einstakra tegunda.