Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði 10% fyrir árið 2020
Steingrímur J. Sigfússon kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum. Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins, 2009/28/EB, um að uppfylla bindandi skilyrði um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2020.
Hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi er innan við eitt prósent og er töluvert á eftir nágrannalöndunum. Þróunin hefur verið hæg hér á landi, m.a. vegna dýrrar tækni, skorts á innviðum sem styðja við nýja tækni og vegna hægrar endurnýjunar bílaflota. Notkun lífeldsneytis til samgangna er, ólíkt öðrum orkugjöfum, ekki bundið því að nýjir innviðir verði settir á laggirnar, eða að samgöngufloti verði endurnýjaður með nýrri tækni. Því hafa mörg ríki horft til þess að leggja skyldur á söluaðila að bjóða lífeldsneyti til að flýta fyrir þróuninni í orkuskiptum og til að styðja við framleiðendur nýrra orkugjafa. Til þess að mæta kröfunni um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum hafa nær allar þjóðir Evrópusambandsins auk Noregs nú innleitt kvaðir um íblöndun eða lágmarkssölu eldsneytis af endurnýjanlegum uppruna.
Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
- Söluaðilum eldsneytis á Íslandi er gert skylt að tryggja að 3,5% af heildarorkugildi eldsneytis í vökva eða gasformi sem þeir selja til notkunar í samgöngum á landi sé af endurnýjanlegum uppruna frá 1. janúar 2015 en 5% frá 1. janúar 2016. Söluaðilum er frjálst að velja hvaða eldsneytistegundir þeir hafa í boði, hvort um er að ræða eldsneyti í hreinu formi (t.d. metan eða lífdísill) eða jarðeldsneyti með ákveðnu hlutfalli af lífeldsneyti blönduðu saman við (t.d. etanól eða metanól).
- Til þess að eldsneyti megi telja með í lágmarksorkugildinu, þarf eldsneytið að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar um sjálfbæra framleiðslu lífeldsneytis. Eldsneytið skal þá uppfylla lágmarkskröfur um takmarkaða losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við jarðefnaeldsneyti. Auknar kröfur eru auk þess gerðar til fyrstu kynslóðar eldsneytis (þ.e. ekki unnið úr úrgangi), þar sem framleiðsla þess og landnotkun gæti mögulega ógnað lífríki eða landi með mikla kolefnisbindingu (s.s. votlendi). Nánari reglur um sjálfbærni framleiðslu verða settar í reglugerð í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
- Framleiðendur sem hyggjast uppfylla ofnagreindar kröfur um sjálfbæra framleiðslu sækja um vottun með annað hvort innlendu kerfi (e. national scheme) eða alþjóðlegu kerfi sem er samþykkt af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e. voluntary scheme). Þá leggja framleiðendur fram upprunavottorð sem fylgja framleiðslunni til eldsneytissala sem leggur gögnin fyrir eftirlitsaðila, sem framfylgir lögum þessum.