Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 80/2012

Fimmtudaginn 14. febrúar 2013

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 3. september 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. september 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. ágúst 2012, þar sem kæranda var synjað um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris.

Með bréfi, dags. 4. september 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 26. september 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. september 2012, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir.

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að fljótlega eftir fæðingu sonar hennar hafi komið í ljós hnútur á hálsi drengsins en ekki hafi tekist að greina hvers kyns meinið væri. Loks var talið að um krabbamein gæti verið að ræða og ákveðið hafi verið að drengurinn færi í aðgerð þar sem sýni yrði tekið úr meininu til nánari greiningar. Í aðgerðinni hafi drengurinn verið svæfður en eftir svæfinguna hafi hann veikst alvarlega, hann hafi m.a. fengið mikla krampa og verið á gjörgæslu um tíma og tvísýnt hafi verið um líf hans. Kæranda hafi gengið illa að fá skýringar á því hvað hefði gerst en síðan hafi komið í ljós að mistök hafi verið gerð í svæfingunni með þeim afleiðingum að drengurinn hafi orðið fyrir súrefnisskorti. Afleiðingar þess séu mikill og alvarlegur heilaskaði. Hann hafi verið á sjúkrahúsi í nokkrar vikur etir aðgerðina. Komið hefur í ljós að líklega hafi ekki verið um krabbamein að ræða en afleiðingar aðgerðarinnar séu mjög alvarlegar. Það sé nærri víst að drengurinn muni aldrei lifa eðlilegu lífi.

Eftir aðgerðina hafi drengurinn verið á stöðugri lyfjagjöf og þurft mun meiri umönnun en áður. Auk þess sé ljóst að umönnunarþörf verði mikil þar sem ástand drengsins sé viðvarandi. Hann hafi verið til skoðunar og rannsóknar hjá hinum ýmsu sérfræðingum eftir aðgerðina. Kærandi segi það liggja ljóst fyrir að foreldrar drengsins muni ekki geta farið út á vinnumarkaðinn á næstu mánuðum eða árum vegna mikillar umönnunarþarfar drengsins.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sé heimilt að framlengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldra sbr. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Umsókn kæranda um lengingu fæðingarorlofs hafi verið hafnað á þeim grundvelli að almenn skilyrði framlengingar vegna veikinda barns séu þau að annaðhvort verði sjúkrahúsdvölin að vera meira en sjö daga samfellt strax eftir fæðingu eða um sé að ræða alvarleg meðfædd veikindi barns við fæðingu. Fæðingarorlofssjóður hafi talið að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt í tilviki sonar kæranda.

Kærandi hafnar þeirri niðurstöðu og segir hana hvorki eiga stoð í 2. mgr. 17. gr. laganna né 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar, en í hvorugu ákvæðanna sé tekið fram að um þurfi að vera að ræða alvarleg meðfædd veikindi né að alvarlegur sjúkleiki barns þurfi að hafa komið í ljós strax við fæðingu. En jafnvel þótt svo væri eigi kærandi rétt á framlengingu fæðingarorlofs þar sem sonur hennar hafi fæðst með hnút á hálsi og því sé um meðfædd veikindi að ræða. Vegna hnútsins hafi drengurinn farið í aðgerð sem hafi orðið til þess að veikindi hans urðu enn alvarlegri og varanleg. Hnúturinn, og þar með veikindin, hafi verið til staðar við fæðingu þó þau hafi ekki verið greind fyrr en einhverju seinna.

Jafnvel þó niðurstaðan yrði sú að veikindi drengsins hafi ekki verið til staðar við fæðingu hans standi lagarök ekki til þess að kærandi geti ekki fengið framlengt fæðingarorlof. Eins og fyrr greini sé það ekki gert að skilyrði í þeim greinum laga og reglugerða sem fjalli um framlengingu fæðingarorlofs að veikindin þurfi að vera til staðar við fæðingu. Fæðingarorlofssjóður hafi til stuðning túlkunar sjóðsins vitnað til 7. gr. laga nr. 51/1997 um breytingar á lögum nr. 117/1993, en sjóðurinn hafi sagt að þar sé að finna ákveðna leiðbeiningu um hvað teljist alvarlegu sjúkleiki barns. Þar segi að bæði geti verið um að ræða alvarlega meðfædda sjúkdóma svo og alvarlega afleiðingar fæðingar fyrir tímann. Vegna þess hafi verið litið svo á að sjúkleikinn þurfi að vera meðfæddur eða afleiðing af fæðingu fyrir tímann og að önnur veikindi barna lengi ekki fæðingarorlof. Kærandi mótmælir þessum skýringum sjóðsins þar sem hvergi komi fram að veikindin þurfi að vera til staðar við fæðingu.

Kærandi segir að gera verði kröfu til þess að svo íþyngjandi ákvarðanir eins og sú sem mál þetta fjalli um verði byggð á skýrum ákvæðum laga og reglugerða.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að barnið hafi fæðst þann Y. febrúar 2012. Tvö læknisvottorð v/lengingar fæðingarorlofs hafi borist, dags. 4. júní og 26. júlí 2012, ásamt fræðigreininni: „Sternocleidomastoid pseudotumor and congenital muscular torticollis in infants: A prospective study of 510 cases.“

Með bréfi til kæranda, dags. 11. júní 2012, hafi verið óskað eftir ítarlegra vottorði frá lækni og hans mati á því hvort veikindi barnsins hafi verið meðfædd. Einnig hafi kærandi verið upplýst um að ef verið væri að sækja um framlengingu á fæðingarorlofi vegna sjúkrahúsdvalar barns þá þyrfti sjúkrahúsdvölin að hafa verið í beinu framhaldi fæðingar.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 1. ágúst 2012, hafi umsókninni verið synjað þar sem ekki hafi verið talið að um væri að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefðist nánari umönnunar foreldris og ekki hefði verið um að ræða sjúkrahúsdvöl í beinu framhaldi fæðingar.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) og 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi fram að þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dveljist á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar komi m.a. fram að upphaf greiðslna miðist við fæðingardag barns og lok þeirra við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Hafi barn innritast að nýju á sjúkrahús veiti það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum.

Fyrir liggi að barn kæranda fæddist þann Y. febrúar 2012, og sjúkrahúsdvöl barnsins skv. framangreindum læknisvottorðum hafi verið frá 26. mars – 10. apríl 2012 og því ekki í beinu framhaldi af fæðingu barnsins. Í samræmi við það geti ekki komið til lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkrahúsdvalar barns skv. 1. mgr. 17. gr. ffl. sbr. og 11. gr. reglugerðar nr. 1218/2008.

Komi þá til skoðunar hvort kærandi kunni að eiga rétt á framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris.

Í 2. mgr. 17. gr. ffl. og 12. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 sé að finna heimild til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að þrjá mánuði ef um sé að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Í 5. mgr. 17. gr. ffl. segi að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1. – 4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis. Enn fremur segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Í málinu hafi verið óskað umsagnar B sérfræðilæknis og liggi fyrir skrifleg umsögn hans, dags. 21. september 2012.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að uppfylla þurfi tvö skilyrði svo réttur til framlengingar skapist vegna alvarlegs sjúkleika barns. Annars vegar sé það skilyrðið um alvarlegan sjúkleika barns en hins vegar að sjúkleikinn krefjist nánari umönnunar foreldris.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er  fyrst vikið að fyrra skilyrðinu.Bent er á að í  athugasemdum viðumrætt  ákvæði 17. gr.  ffl., sé vísað til 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, til frekari útskýringa. Þó sé tekið fram að önnur veikindi barna lengi ekki fæðingarorlof. Í athugasemdum með 7. gr. laga nr. 51/1997, er breyttu þágildandi lögum um almannatryggingar, sé að finna skýringar á alvarlegum sjúkleika barns. En þar segi orðrétt:

 „Þá er gert ráð fyrir að lenging fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns verði allt að þrír mánuðir í stað eins áður. Hér getur bæði verið um að ræða alvarlega meðfædda sjúkdóma, svo og alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann.“

Samkvæmt framangreindu falli ekki öll tilvik um alvarlegan sjúkleika barna undir ákvæðið heldur einvörðungu þau tilvik þegar sjúkleikinn sé meðfæddur svo og þegar sjúkleikinn sé vegna alvarlegra afleiðinga fæðingar fyrir tímann. Sérstaklega sé hnykkt á því í athugasemdum með lögum nr. 95/2000 að önnur veikindi barna lengi ekki fæðingarorlof.

Seinna skilyrðið sé að sjúkleiki barns þurfi að vera það alvarlegur að hann krefjist nánari umönnunar foreldris. Aukin umönnunarþörf foreldris við barn skipti því miklu máli við mat á rétti til framlengingar fæðingarorlofs. Sé sjúkleikinn þannig að hann krefjist ekki nánari umönnunar foreldris sé jafnframt heldur ekki þörf á framlengingu fæðingarorlofs.

Í fyrra læknisvottorði C sérfræðings, dags. 4. júní 2012, segi orðrétt: „Drengur þessi fæddist með torticollis og hnút í musculus sternocleidomastoideus hæ. megin. Sendur í sjúkraþjálfun. Rétt þótti að taka sýni úr tumornum til að útiloka malignitet. Hins vegar fékk hann krampa eftir svæfinguna og ljóst var að hann hafði fengið hypoxic ischemic áverka á heilann því segulómun nokkrum vikum síðar sýndi merki um verulegar heilaskemmdir og vefjatap. Fullvíst má því telja að drengurinn verði verulega skertur neurologiskt.“ Sjúkdómsgreiningar séu congenital deformity of sternocleidomastoid muscle Q68.0, other and unspecified convulsions R56.8 og asphyxia R09.0.

Í umsögn B sérfræðilæknis við fyrra vottorð C segi m.a. orðrétt: „Það kemur fram í vottorðinu að hnútur þessi í hálsvöðva hægra megin sé meðfæddur og er það vel þekkt. Að mínu mati er hins vegar ekki sjálfgefið að venjuleg meðferð við slíkum hnút á hálsi, sem oftast er í formi sjúkraþjálfunar, krefjist nánari umönnunar foreldris að einhverju ráði og sjúkleiki barnsins því ekki bein afleiðing af hans meðfædda hnút í hálsvöðva, heldur afleiðingar súrefnisskorts í svæfingunni og fellur því að mínu mati ekki undir skilyrði sjóðsins fyrir lengingu fæðingarorlofs. Þar sem ljóst er að um alvarlegan sjúkleika barns er að ræða sem án efa krefst aukinnar umönnunar foreldris þá þótti mér rétt að óska eftir ítarlegri upplýsingum frá C áður en endanleg afstaða yrði tekin til vottorðsins.“

Eins og áður segi hafi verið óskað eftir ítarlegra vottorði frá lækni um hvort sjúkleikinn væri meðfæddur. Í seinna læknisvottorði C sérfræðilæknis, dags. 26. júlí 2012, segi orðrétt: „Fullburða drengur sem fæddist eftir eðlilega meðgöngu og var fæðing eðlileg. Er hann var tveggja vikna gamall tók móðir eftir hnút hægra megin í hálsi og leitaði með hann til læknis. Talið í fyrstu að um meðfæddan bandvefshnút í hægri sternocleidomastoid vöðva væri að ræða og var hann sendur í sjúkraþjálfun, eins og venja er undir þessum kringumstæðum. Hnúturinn fór stækkandi og var því fengin ómskoðun af þessu svæði sem sýndi hnút í vöðvanum og fyrir utan hann og einnig grun um stækkaða eitla. D og E töldu rétt að fá sýni úr hnútnum til þess að kanna hvort um illkynja vöxt gæti verið að ræða og var það gert í svæfingu þann 26. mars. Hins vegar virðist drengurinn hafa orðið fyrir súrefnisskorti í aðgerðinni því í kjölfarið fékk hann krampa og segulómun sýndi merki um ischemiskar breytingar í heila. Endurtekin segulómun sem gerð var þann 10. maí staðfesti þennan grun en þá kom í ljós mikið vefjatap og merki um útbreiddan heilaskaða með mikilli rýrnun á heilavef og cystiskum breytingum. Hins vegar komi í ljós að fyrirferð hægra megin á hálsi hafði minnkað umtalsvert frá fyrri segulómskoðun sem bendir til þess að um góðkynja hnút í hálsinum hafi verið að ræða. Niðurstaðan er sú að drengurinn hafi fæðst með bandvefshnút í sternocleidomastoid vöðvanum á hálsi hægra megin og að ekki hafi verið um illkynja vöxt að ræða. Um er að ræða bandvefshnút sem er til staðar við fæðingu, fer vaxandi og greinist yfirleitt við tveggja vikna aldur. Stækkar síðan næstu vikurnar, en fer síðan minnkandi og er yfirleitt horfinn við 5 – 8 mánaða aldur. Því er um meðfætt vandamál að ræða.“ Sjúkdómsgreiningar séu skráðar þær sömu og á fyrra vottorði C.

Í umsögn B við seinna vottorð C segi m.a. orðrétt: „Í seinna vottorði C koma fram ítarlegri upplýsingar sem benda til þess að hnútur þessi hafi verið meðfæddur. Hins vegar koma ekki fram nýjar upplýsingar um orsök hans alvarlega sjúkleika, annað en að um súrefnisskort í svæfingu hafi verið að ræða. Að mínu mati hefur verið um að ræða meðfæddan hnút í hægri sternocleidomastoid vöðva, pesudotumor og venjubundinn meðferð í sjúkraþjálfun hafin. Slík meðferð hefði að mínu mati ekki átt að krefjast aukinnar umönnunar foreldris að öllu jöfnu og því ekki skilyrði fyrir lengingu fæðingarorlofs af þeim sökum. Vegna grunsemda um illkynja vöxt er hins vegar ákveðið að fara í sýnatöku í svæfingu og upp úr því hefjast þessi alvarlegu veikindi barnsins. Óumdeilt er að um alvarlegan sjúkleika er að ræða hjá drengnum sem krefst aukinnar umönnunar foreldra, en tel hann ekki vera vegna meðfædds sjúkleika, heldur afleiðingar einhvers sem hefur gerst í umræddri svæfingu. Þessi alvarlegi sjúkleiki barns fellur því að mínu mati ekki undir skilgreiningar Fæðingarorlofssjóðs um lengingu fæðingarorlofs.“

Samkvæmt framangreindum læknisvottorðum C og umsögnum B sé ljóst að meðgangan og fæðingin hafi verið eðlileg. Barnið fæddist með hnút hægra megin í hálsi sem hvorki verði talinn alvarlegur sjúkleiki barns né hefði krafist nánari umönnunar foreldris. Ákveðið hafi verið þann 26. mars 2012 að taka sýni úr hnútnum til að kanna hvort um illkynja vöxt gæti verið að ræða og hafi það verið gert í svæfingu. Í svæfingunni hafi barnið síðan orðið fyrir súrefnisskorti sem óumdeilt verði að telja orsök núverandi sjúkleika barnsins, en sá sjúkleiki sé aftur á móti ekki meðfæddur né alvarleg afleiðing af fæðingu fyrir tímann. Hins vegar megi ljóst vera að núverandi sjúkleiki barnsins sem sé til kominn vegna súrefnisskortsins sem barnið hafi orðið fyrir í svæfingunni sé alvarlegur og mun að öllum líkindum krefjast nánari umönnunar foreldra.

Af öllu framangreindu virtu verði vart séð að mati Fæðingarorlofssjóðs að barn kæranda uppfylli skilyrði 2. mgr. 17. gr. ffl. sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1218/2008. Önnur veikindi barna en þau sem séu meðfædd eða alvarlegar afleiðingar af fæðingu fyrir tímann og krefjist nánari umönnunar foreldra veita ekki rétt til framlengingar fæðingarorlofs skv. ákvæðunum. Rétt sé hins vegar að vekja athygli foreldra barnsins á því að kanna mögulegan rétt sinn til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 og rétt til greiðslna skv. lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barns nr. 22/2006 hafi þau ekki gert það nú þegar.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um framlengingu fæðingarorlofs vegna sjúkrahúsdvalar barns og vegna alvarlegs sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris, sbr. synjunarbréf dags. 1. ágúst 2012. 

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris.

Af hálfu kæranda er á því byggt að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sé röng þar sem sjóðurinn leggi til grundvallar að skilyrði lengingar fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns sé að veikindin þurfi að hafa verið til staðar við fæðingu en slíkt skilyrði sé ekki að finna í lögum né reglugerðum um fæðingar- og foreldraorlof.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.) er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. ffl. skal rökstyðja þörf fyrir lengingu fæðingarorlofs skv. 1.–4. mgr. sömu greinar með vottorði sérfræðilæknis. Í sömu málsgrein segir jafnframt að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu.

Hvorki er í ákvæði 17. gr. ffl. né í lögskýringargögnum með ákvæðinu, mælt fyrir um hvernig túlka skuli orðalagið „alvarlegan sjúkleika barns“. Hins vegar er í athugasemdum með greinargerð við umrætt ákvæði tekið fram að ákvæðið eigi sér fyrirmynd í 15. og 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Þar er einnig tekið fram að önnur veikindi barna lengi ekki fæðingarorlof. Ákvæði um lengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns, sem krefst nánari umönnunar foreldris, kom fyrst inn í lög um almannatryggingar með lögum nr. 97/1980 um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971. Í lögunum eða lögskýringargögnum með þeim er ekki að finna frekari skilgreiningar eða viðmiðanir um það hvað telst alvarlegur sjúkleiki barns í þessu sambandi, en tekið er fram í lagatextanum að þörfin skuli rökstudd með læknisvottorði og staðfest af tryggingaráði. Sambærilegt orðalag er að finna í lögum um almannatryggingar nr. 117/1993. Í athugasemdum við 7. gr. laga nr. 51/1997, sem breyttu þeim lögum er að finna ákveðnar leiðbeiningar um hvað teljist alvarlegur sjúkleiki barns, en í athugasemdunum segir:

 „Þá er gert ráð fyrir að lenging fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns verði allt að þrír mánuðir í stað eins áður. Hér getur bæði verið um að ræða alvarlega meðfædda sjúkdóma, svo og alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann.“

Með vísan til framangreindrar tilvísunar í athugsemdum með frumvarpi til 17. gr. ffl., til ákvæða almannatryggingalaga nr. 117/1993, þykir verða að skýra orðalag 17. gr. ffl. með hliðsjón af þeim lögskýringargögnum sem fylgja lögum nr. 51/1997 um breytingar á lögum nr. 117/1993. Þykir því rétt að nota þær skýringar sem þar er að finna á hugtakinu „alvarlegur sjúkleiki barns“ til fyllingar orðalagi 17. gr. ffl., enda var þeim skýringum ætlað að vera til fyllingar fullkomlega sambærilegu orðalagi í ákvæðum laga nr. 117/1993. Að mati nefndarinnar er því rétt að túlka ákvæði 2. mgr. 17. gr. ffl. með þeim hætti, að til þess að foreldri öðlist rétt til framlengingar fæðingarorlofs samkvæmt ákvæðinu þurfi að vera um að ræða alvarlegan sjúkleika barns í þeim skilningi að annaðhvort sé um meðfæddan sjúkdóm að ræða eða alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann, á þann hátt að hinn meðfæddi sjúkdómur eða afleiðingar fæðingar fyrir tímann, valdi því að barnið krefjist nánari umönnunar foreldris. Þykir orðalag athugasemda með 17. gr. ffl um að „önnur veikindi foreldra eða barna [lengi] ekki fæðingarorlof“, jafnframt styðja þessa skýringu.

Er því nauðsynlegt að skoða hvort sú meinsemd sem sonur kæranda fæddist með og þær alvarlegu afleiðingar sem urðu af aðgerð sem hann gekkst undir vegna hennar, uppfylli þetta skilyrði 17. gr. ffl., að vera meðfæddur sjúkdómur, sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Í fyrra vottorði C sérfræðings, dagsett 4. júní 2012, er staðfest að sonur kæranda hafi fæðst með hnút á hálsi sem læknar hafi viljað taka vefjasýni úr og því hafi drengurinn verið svæfður. Svæfingin hafi haft þær afleiðingar að drengurinn sé nú alvarlega heilaskemmdur.

Í umsögn B sérfræðilæknis við fyrra vottorð C segir m.a. orðrétt: „Það kemur fram í vottorðinu að hnútur þessi í hálsvöðva hægra megin sé meðfæddur og er það vel þekkt. Að mínu mati er hins vegar ekki sjálfgefið að venjuleg meðferð við slíkum hnút á hálsi, sem oftast er í formi sjúkraþjálfunar, krefjist nánari umönnunar foreldris að einhverju ráði og sjúkleiki barnsins því ekki bein afleiðing af hans meðfædda hnút í hálsvöðva, heldur afleiðingar súrefnisskorts í svæfingunni og fellur því að mínu mati ekki undir skilyrði sjóðsins fyrir lengingu fæðingarorlofs.“

Í síðara vottorði læknisins C, dags. 26. júlí 2012, segir m.a.: „Niðurstaðan er sú að drengurinn hafi fæðst með bandvefshnút í sternocleidomastoid vöðvanum á hálsi hægra megin og að ekki hafi verið um illkynja vöxt að ræða. Um er að ræða bandvefshnút sem er til staðar við fæðingu, fer vaxandi og greinist yfirleitt við tveggja vikna aldur. Stækkar síðan næstu vikurnar, en fer síðan minnkandi og er yfirleitt horfinn við 5 – 8 mánaða aldur. Því er um meðfætt vandamál að ræða.“

Í umsögn læknisins B við þetta síðara vottorð C segir m.a. orðrétt: „Að mínu mati hefur verið um að ræða meðfæddan hnút í hægri sternocleidomastoid vöðva, pesudotumor og venjubundinn meðferð í sjúkraþjálfun hafin. Slík meðferð hefði að mínu mati ekki átt að krefjast aukinnar umönnunar foreldris að öllu jöfnu og því ekki skilyrði fyrir lengingu fæðingarorlofs af þeim sökum. Vegna grunsemda um illkynja vöxt er hins vegar ákveðið að fara í sýnatöku í svæfingu og upp úr því hefjast þessi alvarlegu veikindi barnsins. Óumdeilt er að um alvarlegan sjúkleika er að ræða hjá drengnum sem krefst aukinnar umönnunar foreldra, en tel hann ekki vera vegna meðfædds sjúkleika, heldur afleiðingar einhvers sem hefur gerst í umræddri svæfingu. Þessi alvarlegi sjúkleiki barns fellur því að mínu mati ekki undir skilgreiningar Fæðingarorlofssjóðs um lengingu fæðingarorlofs.“

Ljóst má telja að barn kæranda er haldið sjúkleika sem krefst nánari umönnunar foreldris. Hins vegar verður að telja nægilega staðfest, meðal annars með þeim vottorðum sem fyrir liggja í málinu, að sjúkleiki barns kæranda hafi orsakast af því að barnið var svæft vegna vefjasýnatöku. Því verði þær alvarlegu afleiðingar sem urðu af læknismeðferð barnsins og sú umönnunarþörf sem af henni leiðir, ekki raktar til þess bandvefshnúts sem barn kæranda fæddist með. Því sé hvorki um meðfæddan sjúkleika að ræða né alvarlegar afleiðingar þess að barn fæðist fyrir tímann. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur úrskurðarnefndin að skilyrðum 2. mgr. 17. gr. ffl. um framlengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna sjúkdóms barns kæranda sé ekki fullnægt og er hin kærða ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum