Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Menning og ferðaþjónusta skoðuð frá sjónarhóli hugvísinda

Forsíða greinargerðarinnar
Forsíða greinargerðarinnar

Menning og ferðaþjónusta - um menningu og menningarverkefni á landsbyggðinni frá sjónarhóli hugvísinda er greinargerð samin að frumkvæði Dr.phil. Láru Magnúsardóttur sérfræðings við HÍ og forstöðumanns Rannsóknaseturs HÍ á Norðurlandi vestra og unnin af henni og Sólveigu Ólafsdóttur MA í menningarstjórnun og framkvæmdastjóra ReykjavíkurAkademíunnar. Mennta- og menningarmálaáðuneyti veitti styrk til gerðar greinargerðarinnar.

Viðfangsefni greinargerðarinnar er samhengi menningar og ferðaþjónustu. Annars vegar um mikilvægi þess að hafa skilning á menningarlegum þáttum sem fylgja breytingum á atvinnuvegum og hins vegar um hagnýta þætti, svo sem stefnumótun um stuðning við menningartengd verkefni. Áherslan er þó á menningu og menningarlíf. Í greinargerðinni er sérstök áhersla lögð á starfsemi á landsbyggðinni enda eru aðstæður þar með öðrum hætti en í Reykjavík, en gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land – og hún er raunar þegar hafin.

 Í fréttatilkynningu frá greinarhöfundum segir:
„Mennta- og menningarmálaráðuneytið er hvatt til að láta sig varða ferðaþjónustumál vegna þess hve tengsl ferðaþjónustu og menningar eru miklum mun sterkari en í öðrum greinum atvinnulífs. Þar má fyrst telja að ferðaþjónusta stendur að talsverðum hluta á menningarlegum grunni og er unnin á menningarlegum forsendum. Gera þarf ráð fyrir að áhrifin verði ekki aðeins félagsleg og hagræn heldur komi þau einnig sterklega fram á menningarsviðinu. Eðlilegt er að stjórnvöld láti sig málið varða og að stjórnsýsla og menningarstofnanir taki mið af því við almenna þekkingaröflun, miðlun og stefnumótun.

Í greinargerðinni er gengið út frá þeirri hugmynd að í ferðaþjónustu felist tækifæri til þess að efla menningarstarf og menningarlíf og þannig megi sameina menningarleg og hagræn markmið. Sá vöxtur sem orðið hefur á ferðaþjónustu á undanförnum árum er vísbending um að miklar breytingar hafi orðið og séu væntanlegar í atvinnulífi Íslendinga. Engum blandast hugur um að mikil viðskipta- og atvinnutækifæri liggja á þessu sviði og fyrirhugað er að auka vægi ferðaþjónustu sem atvinnuskapandi og gjaldeyrisaflandi greinar. Það þýðir að ferðaþjónusta hlýtur að skapa stóran sess í stefnumótun yfirvalda á næstu árum, hvort sem er á landsvísu eða heima í héraði. Af því leiðir að fjármunum verður beint í verkefni sem lúta að henni.

Í greinargerðinni er grundvöllur menningarrannsókna og miðlunar borinn saman við stofnanir og fyrirtæki sem sinna rannsóknum á náttúruauðlindum en tengjast jafnframt atvinnulífi. Markmiðið er að vekja spurningar og varpa ljósi á möguleika sem skapast við það að til séu rannsóknastofnanir sem sinna undirstöðu tiltekinna atvinnugreina. Ef litið væri á menningararf sem þá auðlind sem menningartengd ferðaþjónusta vinnur vöru sína úr verður ljóst að margir möguleikar eru fyrir hendi um það hvaða hlutverki slíkar stofnanir geta gegnt. Þannig getur verið um að ræða eftirlitshlutverk, vöruþróun, upplýsingaveitu til stjórnvalda, þátttöku í stefnumótun svo fátt er sé talið.

Sem viðhengi við greinargerðina fylgir íslenskur útdráttur úr hagnýtum leiðarvísi sem gefin var út á vegum Evrópusambandsins á síðasta ári:

Þáttur háskóla í svæðisbundnum vexti

Í Leiðarvísinum er bent á að fram að þessu hafi of mikil áhersla verið lögð á unnin séu afmörkuð verkefni og lagt er til að í staðinn verði sjónum beint að langtíma áætlunum og unnið að þeim með stigskiptri nálgun. Þar kemur fram að háskólar hafi sýnt góðan árangur á jaðarsvæðum og ítrekað að háskólarnir hagnist sjálfir af því að vinna í slíkum verkefnum.

Auk þess heyrir til tíðinda að í leiðarvísinum er eindregið lagt til að fallið sé frá þeirri stefnu sem einblínir á tækni- og viðskiptaleg verkefni, en þess í stað er stungið upp á því að hluti þeirra fjármuna sem veitt er til byggðaþróunar verði settur í sérstaka sjóði sem hafa það markmið til að líta heildrænt á málefni svæðanna og lögð verði áhersla á að nýta krafta hugvísinda, félagsvísinda og skapandi greina, sem hingað til hefur verið vannýttir. Í Leiðarvísinum er dregin saman mikil þekking og reynsla sem lagt er til að verði nýtt hérlendis“.

MENNING OG FERÐAÞJÓNUSTA  - Um menningu og menningarverkefni á landsbyggðinni frá sjónarhóli hugvísinda

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta