Hagvöxtur á Íslandi – tækifæri og ógnanir
Hagvöxtur frá 1960 hefur verið meiri á Íslandi en í flestum öðrum þróuðum hagkerfum en að sama skapi hefur hann einkennst af meiri sveiflum en víðast hvar annars staðar. Á Íslandi var hagvöxturinn svipaður og í Evrópusambandinu á þessu tímabili [1]. Sveiflurnar voru hins vegar tvöfalt meiri á Íslandi en í ESB löndunum.
Íslenski efnahagsvandinn endurspeglast því aðallega í óhóflegum sveiflum fremur en í litlum hagvexti undanfarna áratugi. Fjöldi rannsókna styður þetta enda eru augljósir kerfislegir veikleikar til staðar í hagkerfinu. Útflutningsframleiðslan er fábreytt með sjávarafurðir og ál sem undirstöðu. Í rannsókn frá McKinsey & Company árið 2012 er bent á lága framleiðni vinnuafls í þjónustugeiranum og lága arðsemi í orkugeiranum sem helstu hindranir hagvaxtar. Að auki geta skorður við auðlindanotkun í helstu útflutningsgreinum, landfræðileg staða landsins, stærð þess og menntunarstig hamlað hagvexti. Þessu til viðbótar má nefna óleyst vandamál frá bankahruninu 2008, t.a.m. fjármagnshöftin sem virka letjandi á hagvöxt.
Ísland deilir mörgum einkennum með öðrum hagkerfum sem byggja á auðlindum, t.d. Ástralíu, Kanada, Finnlandi, Nýja-Sjálandi og Noregi. Í því sambandi má nefna áherslu á landbúnað, litlar framleiðslueiningar og tiltölulega stóran þjónustugeira. Þessi lönd eru meðal fremstu hagkerfa heims hvað varðar tekjur á mann, lýðræði og gæði velferðarkerfa. Út frá þeim sjónarhóli hefur auðlindanotkun því ekki verið sá dragbítur sem margir telja. Engu að síður er full ástæða fyrir stjórnvöld að stefna að aukinni fjölbreytni og meiri framleiðni.
Veikleika íslenska hagkerfisins má því einna helst tengja við óstöðugleika, auk aðstæðna á fjármálamarkaði og smæðar markaðarins[2]. Staðan á fjármálamarkaði, t.a.m. hvað varðar fjármagnshöft, er afleiðing hrunsins og aðstæðna á erlendum fjármálamörkuðum. Hvað varðar stærð markaðarins er ólíklegt að nokkuð geti breyst í þeim efnum á skömmum tíma. Þjóðhagslegar aðstæður eru hins vegar nokkuð sem má bæta og gæti skilað sér í minni þjóðhagslegum sveiflum og betra rekstrarumhverfi, ef vel tekst til.
Fyrir utan opinber fjármál, eru gengisstöðugleiki og staða raungengisins þau atriði sem skipta grundvallarmáli. Skarpt fall gengis krónunnar hrunárið 2008 gjörbreytti verðlagi hér á landi. Svipuð breyting átti sér stað í Svíþjóð og Finnlandi snemma á tíunda áratugnum að afstaðinni norrænu fjármálakreppunni og falli Sovétríkjanna. Það er athyglisvert að fyrir þessi efnahagsáföll bjuggu Svíar og Finnar við samskonar flökt í genginu, ýmist til veikingar eða styrkingar, svipað og hér á landi. Í kjölfar falls sænsku krónunnar og finnska marksins fyrir um tveimur áratugum hafa löndin hins vegar haldið raungenginu á svipuðum slóðum og í kjölfar hruns. Í Svíþjóð féll gengið í maí 1992 og í Finnlandi gerðist það í mars 1993. Í kjölfar hrunsins völdu þessi tvö samanburðarlönd hvort sína peningastefnuna, þó að þau hafi bæði gengið í Evrópusambandið skömmu síðar. Svíar héldu sjálfstæðri peningastefnu með flotgengi, en Finnar tóku upp evruna. Bæði þessi lönd hafa þó náð tökum á sínum efnahagsmálum í kjölfar þessara áfalla.
Á myndinni hér að ofan er þessi þróun raungengis í Finnlandi, Svíþjóð og Íslandi borin saman í kjölfar kreppu. Í Finnlandi er miðað við mars 1993, í Svíþjóð er miðaði við maí 1992 og á Íslandi er miðað við október 2008.
Hér á landi hefur raungengið að mestu haldist óbreytt eftir hrun, þó að það hafi styrkst smávegis undanfarin ár. Efnahagsaðstæður eftir hrun og fall bæði nafn- og raungengis, hafa haft mikil áhrif á aðstæður í útflutnings- og innflutningsgreinum. Jákvæð samkeppnisstaða hefur opnað fyrir nýja vaxtamöguleika sem áður stóðu ekki til boða. Hvort þessar aðstæður eru tímabundar eða verða varanlegar, eins og í tilviki Svíþjóðar og Finnlands, á eftir að koma í ljós.
Skýringar
1. ↑ Hafa ber í huga að samanburður við Evrópusambandið er að hluta til erfiður það sem fjöldi landa í sambandinu hefur breyst á tímabilinu.
2. ↑ Sjá t.d. World Economic Forum 2012.