Greiðsluafkoma ríkissjóðs á árabilinu 2009-2012
Undanfarin ár hefur það verið forgangsverkefni stjórnvalda á sviði ríkisfjármála að snúa rekstrarafkomu ríkisins úr verulegum halla í myndarlegan afgang.
Tilgangurinn með þessu er sá að geta hafið niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og gera ríkisreksturinn þannig sjálfbæran til lengri tíma litið.
Markmið ríkisfjármálaáætlunar stjórnvalda hafa verið skýr. Annars vegar hefur verið miðað við að frumjöfnuður í rekstri ríkisins, þ.e. rekstrarafkoma án vaxtatekna og vaxtagjalda, verði orðinn jákvæður árið 2012 og hins vegar að heildarjöfnuður, þegar vaxtajöfnuðurinn er meðtalinn, verði orðinn jákvæður árið 2014.
Markmið ríkisfjármálastefnunnar eru sett fram á greiðslugrunni þar sem horft er til þess í hvaða mæli greiðsluafkoman af rekstrinum gerir ríkissjóði kleift að standa í skilum með skuldir og greiða þær niður.
Bráðabirgðatölur frá Fjársýslu ríkisins um greiðsluuppgjör ríkissjóðs[1] fyrir árið 2012 liggja nú fyrir og bera þær með sér þá niðurstöðu að frumjöfnuður ríkissjóðs hafi verið jákvæður um 18 mia.kr. á greiðslugrunni. Í áætlun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um útkomu ársins 2012 sem unnin var í tengslum við fjárlögin fyrir árið 2013 var reiknað með að afgangur á frumjöfnuði yrði 11,7 mia.kr á greiðslugrunni árið 2012 en samkvæmt þessu uppgjöri varð afgangurinn 18 mia.kr. eða 6,3 mia.kr. betri en áætlað var.
Þetta er í fyrsta sinn eftir bankahrunið haustið 2008 sem afgangur næst á frumjöfnuði og hefur þar með fyrsta markmiði ríkisfjármálaáætlunar stjórnvalda verið náð. Sá árangur að ná jákvæðum frumjöfnuði er stór áfangi í því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs, ná niður vaxtakostnaði og treysta forsendur velferðarsamfélagsins til framtíðar litið.
Mynd 1
Frumjöfnuður og heildarjöfnuður
samkvæmt áætlunum fjárlaga og tölum Fjársýslu ríkisins
Ríkissjóður hefur þannig 18 mia.kr. afgang af frumjöfnuði til að vega á móti vaxtajöfnuði sem var neikvæður um 58,5 mia.kr. á sl. ári. Heildarjöfnuður árið 2012 var neikvæður um 40,5 mia.kr. og er það 3,8 mia.kr. minni halli en gert var ráð fyrir í áætlun fjármála- og efnhagsráðuneytisins. Ljóst er að ennþá er verk að vinna við að ná seinna markmiði ríkisfjármálastefnunnar um jákvæðan heildarjöfnuð. Mynd 1 sýnir frumjöfnuð og heildarjöfnuð á árinu 2012 samkvæmt áætluninni 2013 annars vegar og tölum Fjársýslunnar hins vegar. Þessi útkoma endurspeglast líka í því að handbært fé frá rekstri var samkvæmt þessu uppgjöri neikvætt um 35 mia.kr. á síðasta ári sem er um 9 mia.kr. betra en áætlað var. Á þennan mælikvarða er viðsnúningurinn í ríkisfjármálunum úr 142 mia.kr. neikvæðu handbæru fé frá rekstri árið 2009 í um 35 mia.kr. eða sem svarar til um 107 mia.kr. bata í árlegri afkomu á tímabilinu.
Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 2012 jukust um 8% á milli ára og námu alls 505,8 ma.kr. sem er 4,5 ma.kr. eða 0,9% yfir tekjuáætlun fjárlaga. Greidd gjöld námu 546,3 ma.kr. og jukust um 20,8 ma.kr. frá fyrra ári, eða um 4%.
Á tímabilinu 2009-2013 hefur ríkissjóður þurft að taka á sig auknar skuldbindingar og byrðar sem að stórum hluta má rekja beint til afleiðinga bankahrunsins. Aðgerðir stjórnvalda í ríkisfjármálum hafa því þurft bæði að vega á móti auknum útgjöldum og vinna á fjárlagahallanum. Ef litið er á heildarafkomubata ríkissjóðs frá 2009 til 2012 á verðlagi hvers árs miðað við þessi bráðabirgðauppgjör Fjársýslunnar á greiðslugrunni, hefur frumjöfnuður ríkissjóðs farið úr -100,7 mia.kr. árið 2009 í 18 mia.kr. árið 2012. Batinn á frumjöfnuði yfir tímabilið er því tæplega 120 mia.kr. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) á verðlagi hvers árs hefur frumjöfnuður farið úr -6,7% af VLF árið 2009 í 1,0% af VLF árið 2012, og nemur batinn því um 7,7% af VLF. Mynd 2 sýnir þróun frumjafnaðar á greiðslugrunni frá árinu 2009 til 2012.
Mynd 2
Þróun frumjafnaðar á greiðslugrunni frá 2009 til 2012
Ljóst er að verulegur árangur hefur náðst í viðsnúningi á afkomu ríkissjóðs miðað við þann 100 mia.kr. halla sem varð á frumjöfnuðinum árið 2009, fyrsta árið eftir hrun fjármálakerfisins. Miðað við alþjóðlegar efnahagshorfur og þróun opinberra fjármála í mörgum vestrænum ríkjum má telja það góðan árangur að bati á frumjöfnuði ríkissjóðs sl. fjögur ár nemi samtals 7,7% af VLF.
Þessar tölur gefa til kynna undirliggjandi þróun í greiðsluafkomu ríkissjóðs. Minnt er á að þegar farið hefur fram fullnaðaruppgjör á rekstrargrunni þar sem meðtaldar eru álagðar tekjur og áfallnar skuldbindingar geta komið til einskiptis færslur á óreglulegum liðum sem gætu breytt útkomunni á þann mælikvarða talsvert eftir því í hvaða mæli þær verða.
Skýringar
1. ↑ Fjársýsla ríkisins gefur mánaðarlega út yfirlitshefti um niðurstöðutölur úr reikningshaldi ríkissjóðs og voru tölurnar fyrir allt síðasta ár birtar í sl. viku. Reikningshaldið fer fram á rekstrargrunni þar sem álagðar tekjur og áfallin útgjöld eru bókfærð. Þar sem veigamestu rekstrargrunnsuppgjörin fara þó ekki fram fyrr en síðar á þessu ári við lokun ríkisreiknings s.s. lífeyrisskuldbindingar, afskriftir skattkrafna og aðrir óreglulegir útjaldaliðir eru þessar niðurstöður í rauninni nær því að vera bráðabirgðatölur á greiðslugrunni. Niðurstöðutölur Fjársýslu ríkisins hafa verið notaðar til samanburðar við markmið ríkisfjármálastefnunnar á greiðslugrunni sl. ár í samstarfi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.