Hoppa yfir valmynd
22. mars 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 17/2013, úrskurður 22. mars 2013

Mál nr. 17/2013                    Eiginnafn:     Blær (kvk.)

 

Efni:    Eiginnafnið Blær (kvk.)

 

Hinn 1. febrúar sl. barst mannanafnanefnd erindi frá Þjóðskrá Íslands. Þar kemur fram að vegna fyrirspurna um kvenmannsnafnið Blær í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um rétt einstaklings til að bera það nafn, óski Þjóðskrá Íslands upplýsinga frá mannanafnanefnd um hvort kvenmannsnafnið Blær verði skráð á mannanafnaskrá, eða hvort stofnunin þurfi, berist henni beiðni um skráningu nafnsins Blær fyrir kvenmann, að beina erindi þar að lútandi til mannanafnanefndar.

 

Til að haldið sé til haga upplýsingum um gang málsins og forsendur svars nefndarinnar skal hér tekið fram að þann 31. janúar 2013 féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-721/2012. Í dómnum var fallist á kröfur stefnanda. Annars vegar var fallist á kröfu um ógildingu á úrskurði mannanafnanefndar frá 1998 um að synja umsókn um eiginnafnið Blær sem kvenmannsnafn. Hins vegar var viðurkenndur réttur þeirrar stúlku sem höfðaði málið til að bera eiginnafnið Blær. Í forsendum héraðsdómarans fyrir niðurstöðu vegna síðari kröfunnar er fjallað um það hvort eiginnafnið Blær fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn nr. 45/1996. Niðurstaðan dómarans er að svo sé, og því beri að fallast á viðurkenningarkröfuna. Í tilefni af fyrirspurn Þjóðskrár frá 1. febrúar sl. leitaði mannanafnanefnd til innanríkisráðuneytisins og óskaði þess að fá staðfest frá ráðuneytinu hvort þessum dómi yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Afrit af svari ráðuneytisins til ríkislögmanns barst mannanafnanefnd 19. mars sl. Þar kemur fram að ráðuneytið muni ekki leita eftir áfrýjun málsins.

 

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, er það hlutverk mannanafnanefndar að semja skrá um eiginnöfn sem heimil teljast samkvæmt lögunum. Skrána skal endurskoða eftir því sem þörf er á.

 

Stjórnsýsla sætir endurskoðun dómstóla, eftir almennum reglum. Forsendur þær sem byggt er á í fyrirliggjandi dómi og leiða til þess að viðurkenndur er réttur stefnanda til að bera kvenmannsnafnið Blær sem eiginnafn eru að öllu leyti þær sömu og fullnægja þarf samkvæmt mannanafnalögum svo að nafnið fari á mannanafnaskrá sem eiginnafn konu. Með hliðsjón af þessari dómsniðurstöðu er því rétt að eiginnafnið Blær verði fært á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn. Sú skráning haggar ekki stöðu nafnsins sem karlmannsnafn í sömu skrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum