Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar við sjónarrönd
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu Steingríms J. Sigfússonar að skipa starfshóp til að undirbúa byggingu og fjármögnun nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun.
Í lok árs 2010 skipaði forstjóri Hafrannsóknastofnunar starfshóp sem hafði það hlutverk að meta þá þætti er snerta þarfir stofnunarinnar varðandi rannsóknaskip og þá valkosti sem eru til staðar; þ.e. smíði nýs skips eða endurnýjun á eldri skipum. Skýrsla starfshópsins var kynnt á fundi stjórnar Hafrannsóknastofnunar á síðasta ári sem ályktaði að besti kosturinn til framtíðar væri að smíða nýtt skip.
Hafrannsóknastofnun gerir nú út tvö rannsóknaskip, R/s Árna Friðriksson (70 m) sem smíðaður var árið 2000 og R/s Bjarna Sæmundsson (56 m), sem smíðaður var árið 1970. Árin 2002 og 2003 voru gerðar gagngerar endurbætur á Bjarna Sæmundssyni, sem m.a. höfðu það að markmiði að lengja nýtingartíma skipsins um 8-10 ár.