Færeyingar hafa sett sér einhliða kvóta í norsk-íslenskri síld fyrir árið 2013
Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Jacob Vestergaard, hefur gefið út tilkynningu þess efnis að Færeyingar hafi sett sér einhliða kvóta í norsk-íslenskri síld sem nemi 17% af heildarveiði samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES), sem er 619.000 tonn fyrir árið 2013. Þessi ákvörðun felur í sér rúmlega þrefalda hækkun hlutdeildar Færeyinga (5,16%) samkvæmt samningi milli strandríkjanna Noregs, Íslands, Rússlands, Færeyja og Evrópusambandsins, sem gilt hefur frá árinu 2007. Á strandríkjafundi sl. haust lýstu Færeyingar því yfir að þeir gætu ekki verið áfram aðilar að slíku samkomulagi nema að fá verulega aukningu hlutdeildar, án þess þó að þeir legðu þar fram kröfu um tiltekinn hlut studda vísindalegum gögnum
Þessi ákvörðun Færeyinga veldur verulegum áhyggjum. Hún setur samkomulagið frá 2007 í uppnám, sem er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að stofninn hefur minnkað um meira en helming síðustu fjögur ár, nýliðun hefur verið mjög slök og veiðin byggst á þremur sterkum árgöngum sem hverfa úr veiðistofninum innan tíðar.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur í dag skrifað Jacob Vestergaard sjávarútvegsráherra Færeyja bréf þar sem hann lýsir alvarlegum áhyggjum af þróun mála.