Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Alls 237.957 kjósendur á kjörskrárstofni fyrir alþingiskosningar 27. apríl 2013

Á kjörskrárstofnum þeim, sem Þjóðskrá Íslands hefur unnið vegna alþingiskosninganna 27. apríl 2013 eru 237.957 kjósendur, sem er um 4,4% fjölgun frá alþingiskosningunum 25. apríl 2009 þegar 227.843 kjósendur voru á kjörskrá. Kjósendum hefur því fjölgað um 10.114 eða 4,4%. Fjöldi karla og kvenna er svo til jafn, konur eru 119.300 en karlar 118.657.

Flestir í Noregi
Kjósendur með lögheimili erlendis eru 12.757 eða 5,4% kjósendatölunnar og hefur þeim fjölgað um 2.833 frá síðustu alþingiskosningum eða um 28,5%. Kjósendur með lögheimili erlendis eru flestir búsettir á hinum Norðurlöndunum; 3.560 í Noregi, 3.378 í Danmörku og 2007 í Svíþjóð. Kjósendur á kjörskrárstofni í öðrum Evrópulöndum eru 2.044; flestir í Bretlandi eða 596 og 366 í Þýskalandi. Í Ameríku eru 1.074, í Asíu 246 og í Afríku 94. Sjá mynd.

Nýir kjósendur 18.670
Þeir sem vegna aldurs fá nú að kjósa í fyrsta sinn til Alþingis eru 18.670 eða 7,8% af kjósendatölunni.

Kjósendur eftir kjördæmum
Alls fjölgar kjósendum á kjörskrárstofni um 10.114 frá síðustu kosningum, eða 4,4%. Mest fjölgun hefur orðið í Suðvesturkjördæmi, eða um 8,5%, 4,1% í Reykjavíkurkjördæmi norður og 3,6% í Suðurkjördæmi. Sjá mynd.

Kosningarréttur og kjörskrá
Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 á kosningarrétt hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi. Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á og kosningarrétt í átta ár frá því hann flutti lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag. Slíkur ríkisborgari á einnig kosningarrétt hér á landi eftir þann tíma, hafi hann sótt um það. Ákvörðun um að einhver sé þannig á kjörskrá tekinn gildir í fjögur ár eftir að umsókn var lögð fram. Nú eru á kjörskrárstofnum 865 kjósendur sem svo stendur á um.

Hver maður er tekinn á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag, nú 23. mars.

Í endanlegri tölu kjósenda á kjörskrá, sem birt verður í skýrslu Hagstofu Íslands um kosningarnar, verður tekið tillit til tölu látinna og þeirra sem fá nýtt ríkisfang eftir að kjörskrárstofnar voru unnir, svo og breytinga sem verða á kjörskrá vegna leiðréttinga.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira