Fyrirkomulag makrílveiða 2013
Reglugerð um makrílveiðar íslenskra skipa 2013 hefur verið gefin út af atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Í henni kemur fram heildarmagn þess makríls sem gert er ráð fyrir að veitt verði ásamt skiptingu milli flokka veiðiskipa.
Heildarveiði á makríl er samkvæmt reglugerðinni áætluð 123.182 tonn. Er þetta aflamagn 15% lægra en ákveðið var á síðasta ári. Lækkunin tekur mið af breytingu í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Er þetta sama aðferð og beitt hefur verið hér á landi frá árinu 2011.
Úthlutað er aflamagni til skipaflokka þannig að til smábáta leggjast 3.200 tonn, til ísfisksskipa 6.703 tonn, til frystitogara 25.976 tonn og til uppsjávarskipa 87.303 tonn.
Rétt er að vekja sérstaka athygli á að ákveðið hefur verið að fjórfalda aflamagn smábáta frá fyrra ári þrátt fyrir nokkara lækkun á heildarmagni. Er þá tekið mið af því magni sem þeim var upphaflega úthlutað 2010 og svo hins að ganga makríls á grunnslóð hefur stöðugt verið að aukast og þekking og tök þeirra á þessum veiðum hefur tekið miklum framförum.