Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Fyrstu niðurstöður rannsóknar á meðferð nauðgunarmála afhentar ráðherra

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur tekið við skýrslu um niðurstöður fyrsta áfanga á rannsókn um meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu sem ráðuneytið hafði frumkvæði að og unnin er í samvinnu við EDDU – öndvegissetur við Háskóla Íslands. Nær hún til nauðgunarmála sem tilkynnt voru lögregluembættum landsins árin 2008 og 2009.

Innanríkisráðherra hefur verið afhent skýrsla um rannsókn á meðferð nauðgunarmála árin 2008 og 2009.
Innanríkisráðherra hefur verið afhent skýrsla um rannsókn á meðferð nauðgunarmála árin 2008 og 2009.

Rannsóknin hófst í kjölfar viðamikils samráðs innanríkisráðuneytisins um meðferð nauðgunarmála veturinn 2010-2011 með aðkomu fulltrúa réttarkerfis, fræðimanna og félagasamtaka sem koma að meðferð kynferðisbrotamála. Í því ferli kom fram skýr vilji, bæði innan réttarkerfisins og utan þess, til að rannsaka frekar einkenni þeirra nauðgunarmála sem koma inn á borð lögreglu og svo meðferð þeirra í réttarkerfinu.

Aldurs- og aðstöðumunur

Rannsóknin er unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, mann- og kynjafræðingi, og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur lögfræðingi með aðstoð Maríönnu Þórðardóttur, meistaranema í lýðheilsuvísindum. Rannsókninni til grundvallar liggja allar tilkynntar nauðganir (194. gr. alm. hegningarlaga) sem bárust lögregluembættum landsins árin 2008 og 2009. Í þessum fyrsta áfanga voru lögregluskýrslur greindar út frá einkennum brotanna, atvikum, aðstæðum og málalokum og jafnframt er gerð grein fyrir því hvað einkennir annars vegar þau mál sem lögfræðingar hjá lögreglu hætta rannsókn í eða vísa áfram til ríkissaksóknara og hins vegar þau mál sem ríkissaksóknari fellir niður eða gefur út ákæru í. Að mestu leyti er stuðst við frásagnir brotaþola. 

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að í tilkynntum nauðgunarmálum eru langflestir (98%) brotaþolar konur eða stúlkur en langflestir gerendur karlar eða drengir. Meðal þess sem einkennir þessi mál er mikill aldursmunur á brotaþola og hinum kærða. Um 40% brotaþola eru yngri en 18 ára og þar af leiðandi börn að aldri. Gerendur eru hins vegar eldri, þótt einnig séu dæmi um mjög unga gerendur, eða allt niður í 12 ára gamla. Þetta gefur því til kynna að þau brot sem koma til rannsóknar einkennist af aðstöðu- og þroskamun. Þá eru greindir þeir þættir sem hafa áhrif á afgreiðslu mála annars vegar hjá lögreglu og hins vegar hjá ríkissaksóknara.

Vísbending um næstu skref

Innanríkisráðherra segir rannsóknina mikilvægan lið í því að greina enn frekar þá þætti sem hafa áhrif á meðferð nauðgunarmála. „Þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem gerð er fræðileg rannsókn hér á landi á meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu, allt frá því að mál eru tilkynnt til lögreglu. Síðast var gerð heildstæð úttekt á málaflokknum með skýrslu nauðgunarmálanefndar sem kom út árið 1989. Ég bind vonir við að þegar endanlegar niðurstöður liggja fyrir geti þær hjálpað okkur að skilja betur hver næstu skref eru í því að gera réttarkerfið þannig úr garði að það nái betur utan um þetta útbreidda ofbeldi. Lagaramminn er ekki mikilvægasta viðfangsefnið í dag, heldur hitt, hvernig tekst okkur að framfylgja þessari mikilvægu mannréttindalöggjöf sem kynferðisbrotakafli hegningarlaga er. Í innanríkisráðuneytinu höfum við glímt við þessa spurningu síðustu misserin og ég hef reynt að beita mér fyrir öllum þeim úrbótum sem þörf hefur verið talin á í málaflokknum, þ.m.t. með breytingum á lögum um miska- og skaðabætur og með því að efla lögreglu og saksóknara til að fást við brotaflokkinn. Við nemum ekki staðar fyrr en við höfum útrýmt kynferðisofbeldi með öllu, þessi rannsókn er kannski lítið en samt afar mikilvægt skref á þeirri vegferð,“ segir Ögmundur Jónasson.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum