Alþjóðlegt samstarf í skattamálum – 40 samningar um upplýsingaskipti við lágskattaríki
Undanfarin ár, ekki síst í kjölfar efnahagskreppunnar, hefur upplýsingagjöf um skattamál fengið aukið vægi hjá stjórnvöldum víða um heim. Ríki reyna í vaxandi mæli að verja skattstofna sína, m.a. með því að grípa til aðgerða gegn skattaundanskotum og skattaskjólum í formi upplýsingaskiptasamninga.
Ísland hefur tekið þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi í skattamálum, m.a. með aðild að verkefni á sviði gagnsæis og upplýsingaskipta í skattalegum tilgangi (Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes). Starfið fer fram á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, en einnig í vinnuhópi sem heyrir undir norrænu ráðherranefndina. Þetta samstarf hefur borið þann árangur að á síðustu 6 árum hefur Ísland skrifað undir 40 upplýsingaskiptasamninga við lágskattaríki sem áður fyrr veittu ekki neinar upplýsingar. Þessir samningar koma til viðbótar við þá tvísköttunarsamninga og aðra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og sem einnig innihalda ákvæði um upplýsingaskipti. Í dag eru alþjóðasamningar þar sem Ísland getur beitt upplýsingaskiptum 94 talsins.
Aðalmarkmið Global Forum er að efla og samræma gerð upplýsingaskiptasamninga í því skyni að vinna gegn skattaundanskotum. Eftirtalin atriði eru talin gegna þar lykilhlutverki:
- Að fyrir hendi sé regluverk sem heimilar upplýsingaskipti skv. beiðni.
- Upplýsingaskipti geti fari fram án tillits til þess hvort grunur leiki á að um refsivert athæfi sé að ræða eður ei.
- Reglur um trúnað séu virtar vegna upplýsingaskiptanna og virðing sé borin fyrir öryggisreglum.
- Upplýsingar, einkum frá bönkum og fjármálafyrirtækjum og skráningar um eignarhald og bókhald, séu aðgengilegar og þess gætt að fyrir hendi séu heimildir til að fá þær upplýsingar sem óskað er eftir.
Til að sinna eftirfylgni gagnvart ríkjum sem þátt taka í samstarfinu og til að tryggja jafnræði í eftirfylgni voru settir á fót sérstakir rýnihópar (peer review group). Hlutverk rýnihópanna, en í þeim sitja fulltrúar frá ýmsum ríkjum, er að skoða hvort og hvernig ríkin hafa innleitt og framfylgt undirrituðum upplýsingaskiptasamningum. Úttektin fer ýmist fram í einu lagi þar sem lagaumhverfi og framkvæmd við upplýsingaskiptin eru tekin út eða úttektinni er skipt í tvennt. Mörg ríkjanna þurfa fyrst að huga að lagaumhverfi sínu til þess að geta sinnt upplýsingaskiptunum og því ekki unnt að kanna hvernig til tekst fyrr en þeirri vinnu er lokið. Að úttekt lokinni er gerð grein fyrir niðurstöðum rýnihópsins í skýrslu sem birtist á heimasíðu OECD.
Góð útkoma Íslands varðandi upplýsingaskipti á sviði skattamála
Í mars 2012 hófst vinna á vegum Global Forum við gerð skýrslu um Ísland. Gerð var úttekt á regluverki og framkvæmd við upplýsingaskipti en vinnunni lauk með samþykkt skýrslunnar fyrr í mánuðinum.
Í skýrslunni kemur fram að Ísland hefur í einu og öllu framkvæmt og innleitt alþjóðastaðla er varða gagnsæi og miðlun upplýsinga vegna skattamála. Lög og reglur á Íslandi tryggja að upplýsingar um eignarhald, bókhald og upplýsingar frá bönkum eru fáanlegar í samræmi við alþjóðastaðla. Stjórnvöld á Íslandi hafi beinan aðgang að flestum upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna upplýsingaskiptanna gegnum gagnagrunn skattyfirvalda. Þau hafa jafnframt víðtæka heimild til þess að krefjast frekari gagna frá öðrum. Samningsaðilar Íslands bera þess vitni að íslensk stjórnvöld bregðist fljótt og vel við beiðnum um upplýsingaskipti og að gæði upplýsinga séu eins og best verður á kosið.
Stjórnvöld á Íslandi munu halda áfram að víkka samninganet sitt og fjölga gerð upplýsingaskipta- og tvísköttunarsamninga við önnur ríki.
Um Global Forum
Starf Global Forum má rekja aftur til ársins 1996 þegar fjármálaráðherrar OECD ríkjanna kölluðu eftir aðgerðum frá stofnuninni gegn[1] skaðlegum skattaráðstöfunum og skattaskjólum. Settar voru viðmiðunarreglur með kröfum um gagnsæi og veitingu upplýsinga á sviði skattamála. Jafnframt var birtur listi yfir ríki og lögsagnarumdæmi sem töldust til skattaskjóla.
Fyrstu árin voru fáir upplýsingaskiptasamningar undirritaðir. Í kjölfar efnahagskreppunnar árin 2008-2009 sneru leiðtogar G20 ríkjanna sér til Global Forum og óskuðu eftir aðstoð við innleiðingu alþjóðastaðla um gagnsæi og miðlun upplýsinga vegna skattamála. Að mati G20 skiptir alþjóðleg samvinna í skattamálum sköpum í því skyni að tryggja skattframkvæmd ríkjanna og hindra undanskot frá skatti sem hafa orðið auðveldari með auknu frjálsræði á fjármálamörkuðum. Á fundi í Mexíkó í september 2009 sem yfir 70 ríki og alþjóðastofnanir sóttu, var starfsemi og markmið Global Forum endurskilgreint og ríki hvött til þess að gerast aðilar að samstarfinu.
Yfirlit yfir helstu atriði sem áunnist hafa frá árinu 2009:
- Gerðir hafa verið yfir 1100 samningar sem uppfylla kröfur Global Forum um upplýsingaskipti.
- Í dag eru 119 ríki aðilar að Global Forum auk þess sem ESB og 12 alþjóðastofnanir eru áheyrnarfulltrúar.
- Sett hefur verið af stað vinna við 126 rýniskýrslur, þar af er ríflega 100 skýrslum lokið.
- Yfir 650 athugasemdir hafa verið gerðar í skýrslunum sem lúta að því hvernig ríki geti bætt sig að því er varðar upplýsingaskipti.
- Hátt í 70 ríki hafa nú þegar innleitt eða lagt fram breytingartillögur á lögum sínum í því skyni að bæta úr fyrrgreindum athugasemdum.
Verklok, þ.e. úttekt og birting allra rýniskýrslna, eru áætluð 2015. Framkvæmdastjórn Global Forum mun áfram fylgjast með því að rétt sé staðið að upplýsingaskiptum og að ríki haldi áfram að víkka samninganet sitt. Næsta haust er fyrirhugað að veita ríkjum einkunnagjöf sem byggir á endanlegum rýniskýrslum. Með þeim hætti er unnt að meta á hlutlægan hátt hvort markmiðum Global Forum hafi verið náð.
Á heimasíðu Global Forum er hægt að nálgast útgefnar skýrslur og önnur gögn er varða vinnu þá sem þar fer fram:
- Skýrsla Global Forum um Ísland í apríl 2013 (http://www.eoi-tax.org/jurisdictions/IS)
- Um starf OECD að gagnsæi í skattamálum (http://www.oecd.org/tax/transparency/)
Skýringar
1. ↑ Maí 1996, „develop measures to counter the distorting effects of harmful tax competition on investment and financing decisions and the consequences for national tax bases, and report back in 1998“. Skýrsla OECD Harmful Tax Competition – An Emerging Global Issue var lögð fram á ráðherrafundi í apríl 1998.