Tillögur starfshóps um skattamál fyrirtækja
Starfshópur sem Katrín Júliusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði um skattamál fyrirtækja, hefur skilað áfangaskýrslu. Hlutverk hópsins er að leita leiða til einföldunar í skattframkvæmd gagnvart fyrirtækjum og sníða af mögulega vankanta í framkvæmd en hvorki að auka verulega né draga úr tekjum ríkissjóðs.
Starfshópurinn telur að þær tillögur sem kynntar eru í áfangaskýrslunni séu líklegar til þess að einfalda skattframkvæmd og að auka skilvirkni og gagnsæi skattkerfisins.
Starfshópurinn hefur skipt tillögunum í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru ýmsar breytingar sem tengjast skattframkvæmd. Í öðru lagi leggur starfshópurinn til að nokkur grunnhugtök í tekjuskatti verði skilgreind með nákvæmari hætti. Í þriðja lagi er lagt til að kannaðar verði ýmsar breytingar, bæði á reglugerðum og nánari skoðun gerð á tilteknum lagaákvæðum. Í fjórða og síðasta lagi eru tillögur um aukið samráð ríkis og hagsmunaaðila og aukna upplýsingagjöf á sem flestum sviðum skattkerfisins.
Ívilnanir nýsköpunarfyrirtækja
Af einstökum tillögum má nefna samræmda framkvæmd vegna fjármagnstekjuskatts, samsköttun félaga, ívilnanir nýsköpunarfyrirtækja, samræmingu í innheimtu skatta, skilgreiningar á ýmsum grunnhugtökum, einföldun og samræming á virðisaukaskatti, endurskoðun á vörugjöldum og endurskoðun á reglum um gengishagnað og gengistap. Þá er lagt til að stofnaður verði formlegur samráðsvettvangur um skattamál atvinnulífsins.
Næstu skref eru að útfæra tillögurnar frekar, undirbúa laga- og reglugerðarbreytingar þar sem það á við og skoða hvar hægt sé að gera breytingar á skattframkvæmd.
Áfangaskýrsla starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um skattamál fyrirtækja