Veiðar á úthafsrækju munu ekki standa lengur en til 1. júlí
Ákveðið hefur verið að veiðar á úthafsrækju verði stöðvaðar eigi síðar en 1. júlí 2013. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þróunar veiða á yfirstandandi fiskveiðiári og til að tryggja ákveðinn fyrirsjánleika. Þá má búast við að stjórn veiða á úthafsrækju komi til endurskoðunar fyrir upphaf næsta fiskveiðiárs.
Í júlí 2010 var tekin ákvörðun um að frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 yrði ekki gefinn út heildarafli, og þar með aflamark, vegna veiða á úthafsrækju. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins nr. 46/2012 var gerð grein fyrir forsendum þeirrar ákvörðunar. Þar er rakið að frá fiskveiðiárinu 2000/2001 hafi ekki verið aflað upp í útgefið aflamark. Þá var einnig vísað til skýrslu starfshóps ráðuneytisins um veiðar á úthafsrækju frá 2010, þar sem ljáð var máls á því að tekin yrði upp sóknarstýring í stað aflamarksstýringar við stjórn veiða á stofninum, í því skyni að hvetja til betri nýtingar.
Við upphaf fiskveiðiáranna 2011/2012 og 2012/2013 var ákveðið að framlengja þessa ákvörðun, en veiðar á úthafsrækju hafa að meginreglu verið öllum frjálsar, þó með hliðsjón af ráðgjöf.