Viðbrögð við tilkynningu ESA um formlega rannsókn á ívilnanalögum
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gert athugasemdir við þá ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA að hefja formlega rannsókn á framkvæmd laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.
Lögin voru sett árið 2010 og öðluðust gildi eftir yfirferð og samþykkt ESA um að kerfið væri í samræmið við reglur EES samningsins. Síðan þá hefur verið gerð ein breyting á reglugerð sem hafði ekki í för með sér efnislegar breytingar á hinu samþykkta kerfi. Þá var samþykkt á Alþingi í mars 2013 breyting á lögunum sem ekki hefur enn komið til framkvæmda þar sem hún er háð samþykki ESA og hefur verið til meðferðar hjá stofnuninni undanfarna mánuði.
Frá gildistöku laganna 2010 hafa verið undirritaðir sex fjárfestingarsamningar og hafa þeir allir verið birtir opinberlega. Að baki þeim öllum liggur mikil vinna og fullur vilji yfirvalda til að standa rétt að öllum form- og efnisatriðum í samræmi við ákvörðun ESA frá 2010 þegar kerfið var samþykkt.
Ráðuneytið hefur í dag sent ESA ítarlega greinargerð þar sem farið er yfir forsendur á bak við hvern og einn fjárfestingarsamning ásamt rökstuðningi um að rétt hafi verið staðið að gerð þeirra. Ráðuneytið er bjartsýnt á að rannsókn ESA leiði það í ljós og vonar að rannsóknin taki sem skemmstan tíma, þ.a. allri óvissu verði eytt.
Áhrif þessarar ákvörðunar ESA er sú að á meðan á rannsókn stendur þarf fyrirfram samþykki ESA áður en nýr fjárfestingarsamningur sem gerður er á grundvelli ívilnanalaganna tekur gildi.