Hoppa yfir valmynd
11. maí 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra þakkaður stuðningur við Siðmennt

Siðmennt fagnaði því með hátíðarfundi í gær, föstudag, að félagið hefði öðlast skráningu sem lífsskoðunarfélag. Í ávörpum við það tækifæri þökkuðu þau Hope Knútsson formaður og Bjarni Jónsson varaformaður Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra fyrir stuðning hans við að gera þetta mögulegt.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp á fundi Siðmenntar.
Ögmundur Jónasson flutti ávarp á fundi Siðmenntar.

Fram kom hjá forráðamönnum Siðmenntar að félagið hefði í 13 ár barist fyrir því að lífsskoðunarfélög fengju jafnan rétt og trúfélög og þökkuðu þau tvö bæði innanríkisráðherra og starfsfólki ráðuneytisins á þessum sviðum fyrir framlag þeirra við undirbúning lagabreytingar vegna málsins. Sögðu þau mikilvægt að allir stæðu jafnir hvað varðar lífsskoðanir sínar og trú. Siðmennt, sem er félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnuð árið 1990 og er aðili að alþjóðasamtökum húmanista.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp á fundi Siðmenntar.Ögmundur Jónasson sagði í ávarpi sínu að strax eftir að hann tók við þessu ráðherraembætti hefði hann nefnt tvo málaflokka sem hann vildi taka á hið snarasta með það fyrir augum að ráðast í lagabreytingar. Annað málefnið hefði snúist um að setja reglur um spilavélar og happdrætti. ,,Hitt forgangsatriðið sneri að lífsskoðunarfélögum og þá ekki síst Siðmennt, sem ég lít á sem ákveðna kjölfestu á þessu sviði. Markmiðið var einfalt: Að breyta lögum þannig að lífsskoðunarfélög öðluðust viðurkenningu á við trúfélög til að rækja tiltekin embættisverk, svo sem að gifta og grafa, ferma og gefa nafn. Siðmennt hefur að sönnu annast þessi verk en án viðurkenningar og án þess að njóta jafnræðis á við trúfélög bæði í formi hinnar formlegu viðurkenningar og hvað sóknargjöld áhrærir. Þetta tókst og er mér mikið gleðiefni.”

Siðmennt fagnaði því að félagið hefur verið skráð sem lífsskoðunarfélag.

Ráðherra sagði það mannréttindi að fólk geti ráðið því sjálft hvaða vettvang það kýs til að stunda mannrækt og andlega þekkingarleit eða spyrja tilvistarspurninga. Hann sagði Siðmennt hafa fyrir löngu unnið sér sess og virðingu, ,,og í reynd má segja að ríkið sé nú um síðir að gera að veruleika það sem þjóðin er fyrir löngu búin að gera í reynd, að viðurkenna Siðmennt sem eftirsóknarvert, ábyrgt og uppbyggilegt samfélagsafl sem við viljum að sé til staðar í okkar samfélagi og eigi að njóta viðurkenningar sem slíkt.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum