Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra í velferðarráðuneyti

Eygló Harðardóttir. 2. þingmaður Suðvesturkjördæmis kom til starfa í velferðarráðuneytinu í dag þar sem hún gegnir embætti félags- og húsnæðismálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tók formlega til starfa á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í gær.
Fyrrverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, afhenti Eygló lykla að ráðuneytinu skömmu fyrir hádegi í dag og óskaði henni velferðarnaðar í störfum. Eygló er annar tveggja ráðherra í velferðarráðuneytinu. Helstu verkefni félags- og húsnæðismálaráðherra eru félags- og fjölskyldumál, lífeyristryggingar, húsnæðismál, vinnumál og jafnréttismál. Heilbrigðisráðherra fer með heilbrigðismál.
Eygló segir verkefnin framundan viðamikil: „Það fylgir mikil ábyrgð þeim málefnum sem heyra undir embætti félags- og húsnæðismálaráðherra enda eru þetta allt mjög mikilvægir málaflokkar sem ég mun kappkosta að setja mig vel inn í á næstu dögum og vikum. Ég geri þó ráð fyrir að fyrstu verk mín sem ráðherra muni snúa að húsnæðis- og fjölskyldumálum.“
Eygló er fædd í Reykjavík 12. desember 1972. Hún tók fyrst sæti á Alþingi árið 2006 sem varaþingmaður og síðan þingmaður frá árinu 2008. Hún var fulltrúi í samráðshópi um húsnæðisstefnu árið 2011 og formaður verðtryggingarnefndar sem kannar forsendur verðtryggingar á Íslandi frá árinu 2010. Á Alþingi hefur Eygló átt sæti í heilbrigðisnefnd 2008-2009, iðnaðarnefnd 2008-2009, umhverfisnefnd 2008-2009, menntamálanefnd 2009-2011, viðskiptanefnd 2009-2011, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010, allsherjar- og menntamálanefnd 2011, velferðarnefnd 2011-2012, efnahags- og viðskiptanefnd 2012-2013.