Hoppa yfir valmynd
24. maí 2013 Forsætisráðuneytið

Fyrsti ríkisstjórnarfundur ráðuneytis Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar haldinn í dag

 
  • Fyrsti ríkisstjórnarfundur undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í dag.
  • Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar lögð fyrir og samþykkt.
  • Skipuð verður ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna.
  • Aðgerðaáætlun um einfalt og skilvirkt regluverk fyrir atvinnulífið.

Ríkisstjórn Íslands sat fyrsta ríkisstjórnarfund sinn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í dag, 24. maí 2013. Á fundinum var stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lögð fram og samþykkt.

Á fundinum samþykkti ríkisstjórnin einnig að tillögu forsætisráðherra að skipuð verði ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna. Í nefndinni eiga sæti forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra.

Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skal með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem til er kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Jafnframt verði skipuð sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins sem skili niðurstöðum til ráðherranefndarinnar fyrir næstu áramót.

Ráðherranefndin mun vinna að framgangi þessara verkefna.

Á fundinum samþykkti ríkisstjórnin einnig að tillögu forsætisráðherra aðgerðaáætlun um einfalt og skilvirkt regluverk fyrir atvinnulífið.Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Ríkisstjórnin muni beita sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Markmið hennar verður að minnka skrifræði og einfalda samskipti við opinbera aðila um leið og kostnaði er haldið niðri. Sérstakt markmið er að engar nýjar íþyngjandi reglur verði innleiddar fyrir atvinnulífið án þess að um leið falli brott jafn veigamiklar kvaðir. Þannig munu heildaráhrif regluverksins þróast í rétta átt.“

Til þess að ná árangri við einföldun gildandi regluverks er nauðsynlegt í upphafi að gera úttekt á stöðunni eins og hún er. Greina þarf í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað það er í regluumhverfi atvinnulífsins sem er óþarflega flókið og íþyngjandi og meta kostnaðinn sem af hlýst. Þannig skapast forsendur til að fylgjast með árangri af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þá verði opnaður vefur þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum um hvernig megi einfalda reglur eða stjórnsýsluframkvæmd sem varðar atvinnulífið og draga úr kostnaði.

Aðgerðir til að stemma stigu við nýjum íþyngjandi reglum fela m.a. í sér að þess verði sérstaklega gætt við undirbúning lagafrumvarpa sem varða atvinnulífið að um þau séu haft víðtækt samráð og að metin séu áhrif á hlutaðeigandi geira atvinnulífsins. Þegar frumvarp til laga sem felur í sér nýjar íþyngjandi reglur fyrir atvinnulífið er lagt fyrir ríkisstjórn verði rökstutt sérstaklega hvers vegna nauðsynlegt sé að setja slíkar reglur. Jafnframt verði þá lagt til brottfall annarra reglna til að vega upp á móti viðbótarkostnaði fyrir atvinnulífið. Þá verði lög um opinberar eftirlitsreglur endurskoðuð með það fyrir augum að auka virkni þeirra.

Nánari upplýsingar veitir:
Jóhannes Þór Skúlason
aðstoðarmaður forsætisráðherra
[email protected]
gsm: 690 9414

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum