Ráðherraskipti í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
Í dag tóku þau Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar og viðskiptaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við lyklavöldum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu af Steingrími J. Sigfússyni.
Þau skipta með sér verkum innan ráðuneytisins á þann veg að Ragnheiður Elín mun sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa á sinni könnu almenn viðskiptamál, atvinnuþróun og nýsköpun, ferðaþjónustu, iðnað, verslun og þjónustu, jarðrænar auðlindir og orkumál.
Sigurður Ingi mun sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bera ábyrgð á þessum tveimur málaflokkum auk byggðamála. Skipulag atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og starfsmannahald er jafnframt í hans verkahring. Auk þessa gegnir Sigurður Ingi embætti umhverfis- og auðlindaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir er með BA próf í stjórnmálafræði frá HÍ og MS prófi í alþjóðasamskiptum frá Georgetown University í Bandaríkjunum.
Ragnheiður Elín starfaði hjá Útflutningsráði Íslands 1995-1998.
Hún var aðstoðarmaður fjármálaráðherra 1998-2005, aðstoðarmaður utanríkisráðherra 2005-2006 og aðstoðarmaður forsætisráðherra 2006-2007.
Ragnheiður Elín var kosin á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi árið 2007 og í Suðurkjördæmi frá 2009. Hún var formaður þingflokks sjálfstæðismanna 2010-2012.
Sigurður Ingi Jóhannsson er með embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn (KVL).
Sigurður Ingi var bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi á árunum 1987-1994 og var samhliða bústöfrum sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu. Fram til ársins 2009 starfaði hann sem dýralæknir og frá árinu 2002 að auki sem oddviti Hrunamannahrepps. Árið 2009 var hann kosinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi. Sigurður Ingi er varaformaður Framsóknarflokksins.