Hoppa yfir valmynd
31. maí 2013 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fagleg vinnubrögð í forgrunni við endurskoðun rammaáætlunar

Hvönn og foss í íslenskri náttúru.
Hvönn og foss í íslenskri náttúru.

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, átti á fimmtudag fund með formanni verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar, Stefáni Gíslasyni. Á fundinum kom fram vilji ráðherra til að halda áfram með vinnu þá sem er hafin í ráðuneytinu við rammaáætlun með skipun verkefnisstjórnar. Jafnframt kom fram eindreginn vilji allra aðila til að halda fast í markmið um fagleg vinnubrögð í starfi verkefnisstjórnar og faghópa, svo að sem víðtækust sátt megi nást um niðurstöðu starfsins. 

Ráðherra lagði sérstaka áherslu á að fagleg vinna verkefnisstjórnar haldi áfram eins og lagt hefur verið upp, svo og þeirra faghópa sem hún skipar, m.a. vinna við rannsóknir og greiningu á þeim virkjunarkostum sem nú eru í biðflokki. Lagði ráðherra til að við sína forgangsröðun tæki verkefnisstjórn til skoðunar þá orkukosti, sem fjallað er um í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis frá því í vetur. Eru þessar áherslur í samræmi við lög um rammaáætlun og áherslur í fyrirliggjandi þingsályktunartillögu.

Jafnframt hefur ráðherra áhuga á að tekið verið til athugunar í ráðuneytinu og eftir atvikum í samstarfi við verkefnisstjórn rammaáætlunar skoðun á þeim möguleikum sem felast í stækkun núverandi vatnsaflsvirkjana á svæðum sem þegar eru röskuð og hvernig þau áform geti fallið að vinnu verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Samkvæmt erindisbréfi verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar ber henni að skila fyrstu niðurstöðum sínum til ráðherra snemma á næsta ári.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira