Hoppa yfir valmynd
4. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og húsnæðismálaráðherra á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir, stjórnarmenn og starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins.

Það er einkar ánægjulegt að hitta ykkur svona mörg á ársfundi stofnunarinnar og gott tækifæri fyrir mig að fá að segja við ykkur nokkur orð á fyrstu dögum mínum í embætti félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ég vil byrja á að geta um það að ég hef í nýju embætti mínu fengið að heyra afar vel af ykkur látið. Að hjá Tryggingastofnun ríkisins starfi öflugt lið og gott fagfólk sem hefur mikinn metnað fyrir stofnunina, fólk sem leggur áherslu á að veita sem allra besta þjónustu á grundvelli þeirra laga og umgjarðar sem stofnunin starfar eftir.

Þetta endurspeglast í framtíðarsýninni sem þið settuð ykkur á þjóðfundi í byrjun árs 2011 og hafið að leiðarljósi: Að veita öfluga, persónulega og rafræna þjónustu. – Að vera hagkvæm og skilvirk stofnun. – Og loks að vera virt stofnun sem hlúir að mannauði sínum. Traust – samvinna – metnaður, þetta eru þau gildi Tryggingastofnunar sem starfsfólkið vinnur eftir og þetta eru góð gildi sem hvert um sig segir meira en mörg orð.

Ég veit að það hefur mikið mætt á Tryggingastofnun og starfsfólki hennar á liðnum árum. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á almannatryggingakerfinu sem hver og ein hefur kostað mikla vinnu við undirbúning og síðar framkvæmd. Allar slíkar breytingar veit ég að þarf að vinna með aðkomu ykkar og liðsinni vegna útreikninga og áætlanagerðar og hef ég heyrt á starfsfólki velferðarráðuneytisins að hjá ykkur standi aldrei á svörum, jafnvel þótt að baki liggi flóknir útreikningar og mikil vinna.

Góðir fundarmenn.

Án efa hafið þið mörg skoðað stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar, ekki síst til að sjá hvað helst er í bígerð sem varðar Tryggingastofnun ríkisins og bætur almannatrygginga. Það er ekkert launungarmál að ýmsar breytingar eru fyrirhugaðar og sumum þeirra stefni ég á að hrinda í framkvæmd eins fljótt og kostur er, einfaldlega af því að þær snúast um mikilvæg réttlætismál sem þola enga bið. Vinna við frumvarp vegna mikilvægustu breytinganna stendur yfir í velferðarráðuneytinu þar sem miðað er að því að byrja að draga til baka þær skerðingar sem dundu á öldruðum og öryrkjum á árunum 2009 og áfram.

Alþingi kemur saman til sumarþings næstkomandi fimmtudag. Á næstu dögum mun ég leggja fyrir ríkisstjórn frumvarp til að draga úr skerðingum og stefni að því að leggja það fram á sumarþingi sem hefst í vikunni. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega nefnd hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og fjármagnstekna. Þar að auki vil ég beita mér fyrir því að hætt verði að skerða grunnlífeyri almannatrygginga vegna lífeyrissjóðstekna.

Enn eitt vil ég nefna sem mér finnst mjög mikilvægt að breyta sem fyrst. Árið 2009 var skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækkað úr rúmum 38% í 45%. Þetta olli því að greiðslur til langflestra lífeyrisþega lækkuðu umtalsvert. Þessi breyting var gerð með bráðabirgðaákvæði í lögum og að óbreyttu rennur það út um næstu áramót. Ég tel hins vegar að við þurfum að gera betur.

Mikil atvinnuþátttaka Íslendinga

Um langt skeið hafa Íslendingar haft sérstöðu meðal þjóða vegna mikillar atvinnuþátttöku. Margt kemur til og má þar nefna mikla atvinnuþátttöku kvenna en ekki síður atvinnuþátttöku fólks á efri árum. Að auki má nefna sérstaklega að samkvæmt könnun frá árinu 2009, sem Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Landssamtök lífeyrissjóða og örorkumatsnefnd forsætisráðuneytisins, er atvinnuþátttaka fólks sem er með örorku eða langvarandi sjúkdóma hæst á Íslandi af öllum OECD-ríkjunum, eða rúmlega 61% á móti um 43% að meðaltali innan OECD.

Ég tel engan vafa á því að þessi sérstaða er samfélaginu afar mikilvæg og við eigum að halda henni eins og við getum. Í því felst að tryggja öllum virkni og vinnu eins og kostur er og hvatningu til að nýta krafta sína. Almannatryggingakerfið þarf að styðja við þessa áherslu og mig langar að geta þess til gamans að í Hvítbók Evrópusambandsins er þessu einmitt haldið á lofti og þar er að finna bein rök sem mæla með því að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega líkt og fyrirhugað er.

Frítekjumark á fjármagnstekjur er líka orðið alltof lágt. Það verður að tryggja að fólk sem á hóflegan sparnað á bankareikningum fái notið hans án þess að til komi skerðingar á bótum til viðbótar 20% fjármagnstekjuskatti. Þessu er brýnt að breyta.

Gott fólk.

Ég veit að fyrirhugaðar breytingar munu reyna töluvert á ykkur en veit í ljósi þess orðspors sem fer af stofnuninni að mér verður ekki í kot vísað þegar kemur að undirbúningi og framkvæmd þessara verkefna.

Þróun örorku

Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 var því almennt spáð að mikið atvinnuleysi myndi fljótlega leiða til þess að verulega fjölgaði í hópi örorkulífeyrisþega og að mikill og vaxandi þrýstingur yrði á örorkukerfið. Það er því ánægjulegt að sjá hvað mál hafa þróast á mun betri veg en flestir þorðu að vona. Margt kemur til og ég veit að þær stofnanir sem helst tengjast þessum málum lögðu strax áherslu á góða samvinnu sín á milli og til ýmissa aðgerða var gripið til að sporna gegn þeirri óheillaþróun sem menn óttuðust.

Ég nefndi áðan hátt atvinnustig hér á landi sem hefur skapað okkur sérstöðu og mikilvægt er að við viðhöldum eins og kostur er. Því miður er það hér eins og annars staðar að nýgengi örorku heldur áfram að aukast. Það virðist vera eins konar náttúrulögmál en það getum við engan veginn sætt okkur við. Hér á landi er þó jákvætt að nýgengið er ekki fyrst og fremst hjá ungu fólki eins og víðast annars staðar, heldur frekar meðal þeirra eldri - og það er í sjálfu sér heilbrigðari þróun en ef ungt fólk ætti fyrst og fremst í hlut. Við þurfum samt að gera enn betur og ég er viss um að við getum það.

Starfsendurhæfing í stað örorkumats

Um langt skeið hefur verið unnið að því að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats. Í þessu felst jafnframt ný og mun jákvæðari nálgun en áður þar sem litið er á rétt fólks til þess að nýta starfsorku sína, jafnt í sína þágu og samfélagsins. Ég vil að aukinn kraftur verði settur í þetta verkefni en legg auðvitað áherslu á að það verði unnið í nánu og góðu samstarfi við hagsmunaaðila, þ.e. samtök öryrkja, lífeyrissjóði, aðila vinnumarkaðarins og þá sem skipuleggja, fjármagna og veita endurhæfingu. Takist þetta verkefni vel má binda vonir við að þegar fram líða stundir verði mun fleira fólki unnt að nýta krafta sína á vinnumarkaði – og það er allra hagur.

Blikur á lofti

Sterk tengsl milli atvinnuleysis og örorku eru vel þekkt – og við verðum að vera sívakandi fyrir þeirri staðreynd og fylgjast með öllum vísbendingum um breytingar á verri veg. Ég veit að Tryggingastofnun ríkisins hefur á markvissan hátt beint fólki í endurhæfingu í vaxandi mæli og fylgt því vel eftir. Gengið hefur verið eftir því að fólk fullnýti rétt sinn í sjúkrasjóðum áður en endurhæfingarlífeyrir er veittur – og vel hefur verið fylgst með því að þeir sem fá endurhæfingarlífeyri njóti á meðan virkrar endurhæfingar og hafi um hana markvissa áætlun.

Því miður eru blikur á lofti. Réttur fólks til atvinnuleysisbóta var lengdur tímabundið úr þremur árum í fjögur til að mæta erfiðum aðstæðum á vinnumarkaði. Þessi breyting hefur nú gengið til baka og mér er kunnugt um að þess sjái þegar merki hér hjá Tryggingastofnun þar sem nú séu fleiri farnir að knýja dyra en áður í von um einhverja aðstoð. Við verðum að finna leiðir til að bregðast við þessu og mæta fólki í vanda með viðeigandi lausnum – en meginverkefnið felst auðvitað í því að efla atvinnulífið þannig að störfum fjölgi.

Endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar

Undir lok síðasta þings lagði fyrrverandi velferðarráðherra fram frumvarp um heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Það er stórt mál sem var útilokað að þingið gæti fjallað um á aðeins nokkrum dögum. Vinnan sem í það var lögð mun án efa koma að góðu gagni, þótt þessi áform verði endurmetin og ráðist strax í mikilvægar breytingar sem þola ekki bið, samanber afnám skerðinga sem ég ræddi um hér að framan.

Stefna stjórnvalda er skýr: Það þarf að stilla betur saman réttindi lífeyrisþega til greiðslna úr lífeyrissjóðum annars vegar og almannatryggingakerfinu hins vegar, þannig að skapa megi meiri sátt um samspil þessara tveggja kerfa. Aldraðir eiga að njóta jafnræðis og sanngirni í samfélaginu og geta haldið virkni sinni eins og þeir kjósa og auðið er. Því þarf að stuðla að sveigjanlegum starfslokum og lífeyristökualdri.

Það var verulegur ljóður á fyrrnefndu frumvarpi um heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins að hlutur örorkulífeyrisþega var fyrir borð borinn því þeir sátu ekki við borðið þegar vinnan við frumvarpsgerðina fór fram. Ég mun leggja mikla áherslu á aðkomu þeirra og ætla að funda með formanni Öryrkjabandalags Íslands til að fara yfir þessi mál strax á morgun.

Góðir gestir, ég gæti haldið lengi áfram en einhvers staðar verð ég að láta staðar numið. Ég vil að lokum nefna að ég hef tekið eftir þeim árangri sem Tryggingastofnun ríkisins hefur náð á undanförnum árum við að bæta árangur sinn sem öflug þjónustustofnun í þágu almennings. Það er ótrúlegt hve vel hefur tekist til við að efla stjórnun, bæta starfshætti, auka rafræna þjónustu og skapa stofnuninni mun jákvæðari ímynd en áður. Að öllu þessu hefur verið unnið þrátt fyrir að önnur verkefni hafi verið ærin. Innleiðing CAF-sjálfsmatsins í þessu skyni er eitt þeirra verkefna sem mér er kunnugt um. Þar hefur Tryggingastofnun ríkisins verið í fararbroddi og velferðarráðuneytið nýtur nú liðsinnis þess starfsfólks TR sem best þekkir til þessa kerfis við að innleiða það í sínum ranni.

Ég  vil að lokum óska ykkur áframhaldandi velgengni í metnaðarfullu starfi og treysti á gott samstarf við ykkur starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins í mikilvægum verkefnum framundan.

- - - - - - - - - - - - - -

(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum