Hoppa yfir valmynd
5. júní 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Af ferðum landbúnaðarráðherra á Norðurlandi fyrr í vikunni

Fljótaspjall
Fljótaspjall

Mánudaginn 3. júní fór Sigurður Ingi Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um Norðurland til að ræða við bændur kynna sér stöðu mál vegna snjóþyngsla og kals á túnum. Með í för voru Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands, Kristinn Hugason sérfræðingur á skrifstofu landbúnaðar og matvælamála í ráðuneytinu og Höskuldur Þór Þórhallsson alþingismaður. Hér á eftir fylgir ferðalýsing.


Flugum til Sauðárkróks, hittum Eirík Loftsson ráðunaut hjá RML á skrifstofu Leiðbeiningarmiðstöðavarinnar í Skagafirði í stuttu spjalli þar sem farið var yfir ástand mála í héraðinu. Allra síðustu vikurnar hefur tíð batnað mikið í Skagafirði en fyrir liggur að mikið kal er í túnum í Hjaltadal og í Óslandshlíð, endurræktun er þar hafin víðast hvar sem hennar gerist þörf. Enn þá eru þó mikil snjóalög í Fljótum svo ástand túna þar er ekki komið í ljós. Vonir standa þó til að tún komi ókalin undan en bændur hafa óneitanlega orðið fyrir miklum útgjöldum og vinnuálagi vegna langs gjafatíma á sauðfé.

Ókum út í Fljót og heimÍ Fljótumsóttum hjónin Írisi Jónsdóttur og Jón Elvar Númason á Þrasastöðum í Fljótum. Því sem næst allt fé er þar enn þá inni á fullri gjöf: Þau hjón eru þó bjartsýn á framvinduna um leið og snjóa leysir en tíðin í vor hefur verið óvenju köld og kemur í framhaldi gríðarlegra snjókomu í vetur, sem að auki byrjaði óvenju snemma, þetta hefur orsakað mikil fóðurútgjöld og vinnuálag.

Að lokinni heimsókn í Fljótin var ekið um Siglufjörð, Ólafsfjörð og til Dalvíkur þar sem Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar bættist í hópinn. Þaðan var farið að Hofsá í Svarfaðardal, þar sem rætt var við Trausta Þórisson bónda,  Gunnhildi Gylfadóttur á Steindyrum, formann Búnaðarsambands Eyjafjarðar o.fl.

Fram kom að veturinn hafði verið óvenju Sigurður Ingi og Trausti Þórissonsnjóþungur og erfiður á Svarfaðardal, snjó er þó að taka að mestu upp í hlýindunum sem nú standa yfir en þó er enn þá umtalsverður snjór í Skíðadal (dalur sem liggur fram af Svarfaðardal). Í framhaldinu var ekið fram í Skíðadal. Erfitt er að átta sig á kali vegna þess að jörð er víða nýlega komin undan en það er þó vafalaust umtalsvert.

Því næst var ekið í Stóra-Dunhaga í Hörgárdal og rætt við Árna Arnsteinsson bónda þar, Hannes Gunnlaugsson bónda á Hofi, Stefán Magnússon bónda í Fagraskógi og Róbert Jósavinsson bónda í Litla-Dunhaga stjórnarmenn í búnaðarfélagi sveitarinnar og Helga Steinsson bónda á Syðri-Bægisá, sveitarstjórnarmann. Síðan var farið í skoðunarferð um Hörgárdal, allt fram að Þúfnavöllum. Skoðað var stórt kalstykki sem Bernharð Arnarson bóndi í Auðbrekku var að vinna og sá í. Fyrir liggur að kal er óvenju mikið í sveitinni en er nánast einskorðað við flatlendið. Endurvinnsla er í fullum gangi.

Að lokinni heimsókn í Hörgárdal var ekið sem leið liggur út í Grýtubakkahrepp og rætt við Þórarinn Pétursson bónda á Grýtubakka og formann Félags sauðfárbænda. Snjóa leysir þar nú sem óðast og virðast tún koma nokkuð góð undan. Að lokinni heimsókninni í Grýtubakka var ekið um Þingeyjarsveit allt að Brún í Reykjadal þar sem rætt var við húsráðendur; Erling Teitsson bónda og Sigurlaugu Svavarsdóttur húsfreyju, og Ara Teitsson á Hrísum fyrrverandi formann Bændasamtakanna. Aðstæður voru skoðaðar á leiðinni og einnig á eftir heimsóknina að Brún og þá í fylgd Guðrúnar Tryggvadóttur í Svartárkoti, formann Búnaðarsambands S-Þingeyinga. Kalið tún í ÞingeyjarsýsluFyrir liggur að kal er mikið í Þingeyjarsveit og ekki nægur kraftur að því er best verður séð í endurvinnslu. Að lokum var Marteinn Sigurðsson bóndi á Kvíabóli í Köldukinn sóttur heim. Þar er allt í fullum gangi en víða í Kinninni er kal næsta árvisst sem Marteinn bregst við með bæði að hafa túnin í stærra lagi m.v. fjölda búfjár og með stöðugri endurvinnslu.

Að lokinni heimsókninni í Kvíaból óku ráðherra ásamt Sigurgeiri Sindra og Kristni til Akureyrar og tóku flug suður.

Samantekið: Fyrir liggur að vorið er komið á Norðurlandi, hina óvenju miklu og þaullægju vetrarsnjóa leysir nú sem óðast. Með því hverfa mörg vandamál en eftir stendur að veturinn var erfiður og afar gjafafrekur. Mjög umtalsvert kal er og staðreynd bæði í þekktum kalsveitum og eins í sveitum þar sem kal er mikið fátíðara. Jafnvel er dæmi um að stöku kalsveitir sleppi venju fremur vel, t.d. sveitin sunnan Árskógsstrandar (Arnarneshreppur) en þar hefur kal verið nánast árvisst.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta