Hoppa yfir valmynd
7. júní 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra beitir sér fyrir aðgerðum til að einfalda regluverk

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar er lögð áhersla á að bæta rekstrarumhverfi atvinnulífs, m.a. með því að einfalda regluverk. Markmiðið er að draga úr óþarflega íþyngjandi kröfum á almenning og atvinnurekstur og auka skilvirkni í starfsemi ríkisins. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að skila aukinni framleiðni bæði í einkageiranum og opinberri starfsemi, sem er skref í átt að öflugra atvinnulífi og bættri  samkeppnisstöðu. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur ákveðið að ráðast í aðgerðir á málefnasviði sem undir hann heyrir til að einfalda regluverk og draga úr kostnaði atvinnulífs og almennings. Aðgerðir í fyrstu beinast að almennu viðskiptaumhverfi og þá einkum út frá hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í framhaldinu er ráðgert að fara kerfisbundið yfir allt regluverk ráðuneytisins með þarfir notenda í huga og ekki síður hvort þær kröfur sem gerðar eru skili árangri.

Áhersla verður lögð á að undirbúa aðgerðir í samstarfi við hagsmunaaðila.

Vinna er hafin við að yfirfara regluverk og kröfur sem gerðar eru til atvinnureksturs í lögum, reglugerðum eða verklagsreglum. Mikilvægt að ráðast strax í aðgerðir sem geta skilað skjótum og merkjanlegum árangri.

Þau viðfangsefni sem hafist verður handa við tengjast annars vegar stofnun fyrirtækja og starfsleyfum og hins vegar kröfum um skil fjárhagsupplýsinga.

Aðgerðir sem þessar geta kallað á breytingar á lögum og reglum eða einungis breytingar á skipulagi og verklagi í stjórnsýslunni.

Ráðgert er að beinar tillögur verði tilbúnar fyrir lok sumars.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta