Hoppa yfir valmynd
14. júní 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Breytingar á veiðigjöldum treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins en viðhalda gjaldheimtu fyrir nýtingu auðlindarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson

Í dag mun ráðherra sjávarútvegsmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld sem skulu gilda í eitt ár meðan heildarendurskoðun á gjaldheimtunni fer fram.

Nauðsynlegt er að ganga frá þessari lagabreytingu á sumarþingi því núgildandi lög er ekki hægt að nýta til niðurjöfnunar veiðigjalda  þegar nýtt fiskveiðiár hefst 1. september.

Hér er rétt að tiltaka sérstaklega tvö atriði. Í fyrsta lagi reyndust vera ákveðnir tæknilegir meinbugir á lögunum sem gera þau óframkvæmanleg.  Þeir felast einkum í því að ekki er hægt að afla nauðsynlegra opinberra gagna til að byggja á við útreikning  veiðigjalds fyrir næsta fiskveiðiár .Í annan stað er það mat ráðherra að í núgildandi lögum hafi verið gengið of langt í álagningu veiðigjalda og það hafi teflt rekstrargrundvelli sjávarútvegsins í tvísýnu. Þá hefði hin háa gjaldtaka  dregið úr nauðsynlegri fjárfestingu og framþróun í greininni.

Í frumvarpinu er lagt til að bæði almennt og sérstakt veiðigjald verði ákveðið með tiltekinni krónutölu, með líkum hætti og á yfirstandandi fiskveiðiári. Samkvæmt frumvarpinu  er lagt til að álagning sérstaks veiðigjalds á komandi fiskveiðiári nemi 7,38 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 38,25 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum. Þrátt fyrir þennan krónumun á gjaldi á kíló ganga áætlanir út frá því að álagningin hafi jöfn áhrif á báða útgerðarflokka þegar litið er til áhrifa á afkomu.  Við framangreindar krónutölur leggst hið almenna veiðigjald sem er 9,5 kr. fyrir báða útgerðarflokka.

Umtalsverð lækkun álagningar á botnfiskveiðar miðað við yfirstandandi fiskveiðiár speglar m.a. lækkun á verði þorsks á mörkuðum en hækkun á álagningu á uppsjávarveiðar ræðst af bættri afkomu uppsjávarveiðifyrirtækja. Með þessu er áætlað að innheimt veiðigjöld á næsta fiskveiðiári nemi um 10 milljörðum.

Á síðustu árum hafa sjávarútvegsfyrirtæki greitt niður skuldir og tekjuskattsgreiðslur þeirra hafa á sama tíma aukist umtalsvert. Talið er, samkvæmt áætlun Deloitte, að tekjuskattsgreiðslur þeirra muni nema um 8,5-9,5 milljörðum á rekstrarárinu 2012.

Að auki er með frumvarpinu lagt til að aðferð við álagningu veiðigjalda á úthlutaðar aflaheimildir verði tekin til endurskoðunar með ákvörðun svonefndra „sérstakra þorskígilda“, sem eru til þess fallin að jafna álagningu niður með sanngjarnari hætti en ef stuðst væri við þá þorskígildisstuðla sem ákveðnir eru í lögum um stjórn fiskveiða. Þá er lagt til að heimilt verði að miða gjalddaga álagðra veiðigjalda við það  hvenær veiðar fara fram á viðkomandi fisktegund.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta