Hoppa yfir valmynd
24. júní 2013 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra undirritar fríverslunarsamninga EFTA við Kostaríka, Panama og Bosníu

Ráðherrar EFTA ríkjanna og framkvæmdastjóri EFTA

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðherrafundi EFTA-ríkjanna sem haldinn var í Þrándheimi. Í tengslum við fundinn undirritaði utanríkisráðherra fyrir hönd Íslands fríverslunarsamninga við Kostaríka, Panama og Bosníu. Nú hafa EFTA ríkin undirritað 26 fríverslunarsamninga við 36 ríki. Á fundinum skrifaði utanríkisráðherra einnig undir samstarfsyfirlýsingar EFTA við  Mjanmar.

Utanríkisráðherra lýsti ánægju með það öfluga starf sem unnið er innan EFTA við fríverslunarnet EFTA ríkjanna við ríki utan Evrópusambandsins og sagði það í samræmi við áherslur nýrrar ríkisstjórnar. Hvatti  utanríkisráðherra sérstaklega til þess að stefnt yrði á að ljúka fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan á þessu ári. Þá ræddu ráðherrarnir um stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Indland, Indónesíu og Víetnam og fögnuðu því að viðræður myndu hefjast fljótlega við Malasíu.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og ákváðu að óska eftir viðræðum við bandarísk stjórnvöld til að fara yfir stöðu mála og greina frá hagsmunum EFTA ríkjanna í tengslum við áform þessara helstu viðskiptaríkja EFTA um að gera með sér víðtækan fríverslunar- og fjárfestingarsamning (TTIP). Á fundinum upplýsti utanríkisráðherra ráðherra hinna EFTA-ríkjanna um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlé á aðildarviðræðum Íslands að Evrópusambandinu. Einnig ræddu ráðherrarnir um stöðu viðræðna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Ráðherrarnir  ræddu framvindu EES samningsins. Utanríkisráðherra ítrekaði mikilvægi hans fyrir Ísland og sagðist myndi leggja ríka áherslu á að tryggja virkni hans og styrkja enn frekar þátttöku Íslands í EES-ferlinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum