Innanríkisráðherra heimsótti Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í gær Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð og kynnti sér starfsemi stjórnstöðva viðbragðsaðila sem þar eru.

Forsvarsmenn stofnananna, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rögnvaldur Ólafsson, frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, og Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, tóku á móti ráðherra og öðrum gestum og kynntu starfsemina í Björgunarmiðstöðinni og hið öfluga kerfi viðbragðsaðila hér á landi.
Í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð fer m.a. fram mikilvægt samhæfingarstarf milli helstu björgunaraðila landsins, komi til aðgerða sem kalla á samvinnu margra aðila eða stórra viðburða, t..d. þar sem margir einstaklingar eiga í hlut og þarfnast aðstoðar.
Í slíkum tilvikum er samhæfingar- og stjórnstöð Björgunarmiðstöðvarinnar virkjuð, þar sem allir viðbragðsaðilar sem hlut eiga að máli, jafnt innan Björgunarmiðstöðvarinnar sem utanaðkomandi aðilar svo sem Isavia, Rauði krossinn o.fl. koma að aðgerðum. Þetta fyrirkomulag hefur hlotið mikið lof frá erlendum samstarfsaðilum sem hafa komið til landsins og fengið að kynna sér starfsemi Björgunarmiðstöðvarinnar.