Iðnaðar- og viðskiptaráðherra ræddi stöðu olíumála á málþingi í Bifröst
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti í gær opnunarávarp á málþingi um áhrif olíu- og gasleitar á íslenska landgrunninu í Háskólanum á Bifröst.
Þar sagði ráðherrann meðal annars að mikilvægt væri að umræðan færi fram bæði meðal fræðimanna og hagsmunaaðila. Hún sagði að það væri frekar ný til komið að Íslendingar væru fyrir alvöru að huga að þessu málum líkt og nú með því að gefa út rannsóknarleyfi og að enn stæðum við frammi fyrir laga-, umhverfis- og pólitískum álitaefnum sem leysa þyrfti úr varðandi hugsanlega gas- og olíuvinnslu. Því væru málþing sem þessi mikilvæg innlegg inn í umræðuna.
Hún ræddi stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fram kæmi að til stæði að ráðast í undirbúningsvinnu vegna nýtingu olíu- og gasauðlinda meðal annars vegna samgöngumála, slysavarna og björgunarstarfa, umhverfisverndar, innviða, samstarfs við nágrannalönd og regluverks ásamt því að stofna sérstakt ríkisolíufélag.
Fram kom að á undanförnum árum hefðu Íslendingar verið að auka þekkingu sína á málaflokknum, bæði innan íslenskra fyrirtækja en eins á stjórnsýslustiginu og að mikilvægt væri að halda þeirri vegferð áfram því sú þekking væri mikilvæg hvort sem vinnanleg kolvetni finnist innan efnahagslögsögunnar eður ei.
Þá ræddi hún samfélagsleg áhrif þess að á Íslandi gæti orðið aðal þjónustu- og umskipunarhöfn fyrir austurhluta Grænlands eða önnur svæði utan íslensku efnahagslögsögunnar. Sú hugmynd væri afar áhugaverð og að fylgst væri vel með þróun þeirra hugmynda. Hún nefndi einnig að menn væru að skoða möguleika á öðrum svæðum, meðal annars á Gammi og svæðinu norðan Tjörness.
Ráðherra sagði mikilvægt að áður en næstu skref yrðu stigin þyrfti allt regluverk og umgjörð utan um olíu- og gasvinnslu að vera til staðar. Fylgst væri vel með því sem Norðmenn hefðu gert og væru að gera varðandi þessi mál.
Á eftir iðnaðar- og viðskiptaráðherra tóku til máls: Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindamála hjá Orkustofnun, dr. Ole Gunnar Austvik, prófessor við norska BI viðskiptaháskólann í Osló, dr. Gunhild Hoogensen Gjørv, prófessor við Háskólann í Tromsø og Berit Kristofferrsen, doktorsnemi við Háskólann í Tromsø.