Forsætisráðherra tók á móti aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tók á móti Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, á Þingvöllum í morgun. Gengið var frá Hakinu, niður Almannagjá og að Þingvallabústaðnum, en Þingvellir eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þjóðgarðsvörður, Ólafur Örn Haraldsson, var til leiðsagnar.
Forsætisráðherra og aðalframkvæmdastjóri áttu síðan fund í Þingvallabústaðnum og ræddu þar meðal annars um sjálfbæra þróun til framtíðar, loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru jarðarinnar. Einnig var rætt um áhrif ríkja á framþróun og markmiðssetningu á alþjóðavettvangi. Aðalframkvæmdastjórinn hafði fyrr um morguninn farið með þyrlu að Langjökli, ásamt utanríkisráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og Helga Björnssyni jöklafræðingi, þar sem hann kynnti sér hvernig jöklar hafa hopað undanfarna áratugi.
Heimsókn aðalframkvæmdastjórans lauk í dag.