Frumvarp til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna og skipa
Frumvarp þetta var samið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og er að mestu byggt á eldra frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem lagt var fram á 135. löggjafarþingi 2007–2008 en fékk ekki afgreiðslu. Frumvarpið var lagt fram aftur lítillega breytt á 138. löggjafarþingi 2009–2010 en fékk ekki afgreiðslu. Eldra frumvarp var samið af vinnuhóp sem upphaflega var skipaður af dóms- og kirkjumálaráðherra í maí 2007. Málefni fasteignasala voru síðan flutt til viðskiptaráðuneytis og skipaði viðskiptaráðherra sömu aðila í nefnd til að ljúka tillögugerð um breytingar á lögum nr. 99/2004, um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Frumvarpið var síðan lagt fram á 140. löggjafarþingi en beið þá 1. umræðu. Það var svo lagt fram af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra á 141. löggjafarþingi en við breytingar á skipulagi Stjórnarráðs Íslands 1. september sl. fluttust þangað verkefni er varða almenn viðskiptamál, þ.m.t. sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.
Helstu efnisatriði frumvarpsins.
Lagt er til að afnumin verði einkaréttur fasteignasala til að hafa milligöngu um sölu fyrirtækja. Í gildandi lögum miðast einkaréttur fasteignasala við að hafa milligöngu um sölu fyrirtækja annarra en hlutafélaga. Í frumvörpum þeim er lögð voru fram á 135. og 138. löggjafarþingi var leitast við að afmarka hvaða atvinnufyrirtæki féllu undir einkarétt fasteignasala og var lagt til að einkarétturinn tæki ekki til atvinnufyrirtækja ef umfang rekstrarins á síðasta mánuði fyrir sölu var meira en svarar til fimm ársverka eða til hlutafélaga. Sú breyting sem lögð er til nú byggist á því að vandséð sé að menntun og reynsla fasteignasala veiti þeim meiri sérfræðiþekkingu til sölu atvinnufyrirtækja en öðrum, eins og t.d. viðskiptafræðingum eða endurskoðendum.
Lögð er til breyting á reglum um menntun fasteignasala sem felur einkum í sér að háskólum er falið að hafa umsjón með námi fasteignasala og framkvæmd prófa. Félag fasteignasala hefur gert athugasemdir við menntun fasteignasala og telur að lengja eigi námið úr 90 einingum í 180 einingar.
Lagt er til að ákvæði um eignarhald á fasteignasölum verði óbreytt frá núgildandi lögum. Í frumvarpi því sem lagt var fram á 138. löggjafarþingi var lagt til að eignarhald á fasteignasölum yrði gefið frjálst þannig að það verði ekki lengur skilyrði að fasteignasali eigi fasteignasölu og starfi á henni. Í þessu frumvarpi er fallið frá þeirri breytingu sem lögð hafði verið til. Á Norðurlöndunum hefur verið farin sú leið að gefa eignarhald á fasteignasölum frjálst og hefur reynslan af þeirri tilslökun verið misjöfn. Mesta hættan er á því að sú skylda fasteignasala að veita óháða ráðgjöf víki fyrir öðrum hagsmunum, þ.e. hagsmunum eigenda, á kostnað neytenda.
Gerð er tillaga um að skerpt verði á því að innheimta umsýslugjalds þurfi að eiga sér stoð í fyrir fram gerðum samningi á milli kaupanda og fasteignasala.
Lagt er til að skylduaðild að Félagi fasteignasala verði afnumin.
Lagðar eru til breytingar á skipan eftirlitsnefndar sem felast m.a. í því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra skipi alla fulltrúa í nefndina.
Lagt er til að auk eftirlits með fasteignasölum skuli eftirlitsnefnd fasteignasala taka við kvörtunum frá kaupendum og seljendum fasteigna telji þeir að fasteignasala eða fasteignasali hafi valdið sér tjóni. Í frumvörpum þeim sem lögð voru fram á 135. og 138. löggjafarþingi var gert ráð fyrir að stofnuð yrði sérstök kærunefnd sem tæki við slíkum kvörtunum frá kaupendum og seljendum fasteigna.
Óskað er eftir að athugasemdir berist eigi síðar en 5. september 2013 í tölvupóstfangið [email protected] eða bréflega til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík.