Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, átti í dag fund með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, átti í dag fund með Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í höfuðstöðvum þess í Brussel.
Forsætisráðherra ræddi meðal annars við framkvæmdastjórann um framtiðaráskoranir bandalagsins, til dæmis vegna nýrra ógna, breyttra landfræðilegra áherslna og aukinna krafna um hagkvæmni og hagræðingu þegar kreppir að í efnahag bandalagsríkja.
Rætt var um fyrirhuguð loftrýmisgæsluverkefni bandalagsríkja á Íslandi næstu árin, ekki síst þá áhugaverðu þróun að Finnland og Svíþjóð munu nú taka þátt í loftrýmisgæsluverkefni með Noregi. Verður það í fyrsta sinn sem norrænu samstarfsþjóðirnar tvær koma að slíku verkefni og er það mikilvægt skref, byggt á stefnumörkun sem fram kom í skýrslu Thorvald Stoltenberg 2009, m.a. um nánara norrænt samstarf á sviði varnar- og öryggismála.
Forsætisráðherra lagði áherslu á óbreytta stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkis- og varnarmálum þar sem þátttaka Íslands í Atlantshafsbandalaginu sé meginstoð í vörnum Íslands. Tengsl og samstarf við öll bandalagsríkin væri mikilvægur þáttur í að styrkja og efla stöðu Íslands að þessu leyti. Þátttaka Íslands í verkefnum Atlantshafsbandalagsins þar sem sérfræðiþekking og reynsla nýtist á ýmsum sviðum, verður áfram tryggð.
Forsætisráðherra bauð framkvæmdastjóranum að heimsækja Íslands við fyrsta tækifæri og tók framkvæmdastjórinn vel í það.