Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 47/2013, úrskurður 16. ágúst 2013

Mál nr. 47/2013
Millinafn: Gests

 Hinn 16. ágúst 2013 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 47/2013 en erindið barst nefndinni 26. júlí:

Sótt er um millinafnið Gests. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996 eru nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, ekki heimil sem millinöfn. Nafnið Gestur er eiginnafn karlmanns í íslensku. Gests er eignarfallsmynd þess nafns og er því óheimilt að fallast á það sem millinafn samkvæmt lögum nr. 45/1996. Í ljósi fortakslauss orðalags tilvitnaðs lagaákvæðis breytir engu þótt nafnið hafi eða kunni í örfáum tilvikum að hafa verið notað sem millinafn, eða sem auðkenning með sambærilega stöðu og millinöfn hafa samkvæmt gildandi lögum. 

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn er heimilt að gera undantekningu frá 2. mgr. 6. gr., og gefa einstaklingi millinafn þrátt fyrir að skilyrðum þess ákvæðis sé ekki fullnægt ef eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn. Samkvæmt gögnum málsins bar hálfbróðir móður þess barns sem ætlunin var að gefa millinafnið Gests þetta nafn. Þau tengsl fullnægja ekki tilvitnuðum skilyrðum 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn. Gögn málsins bera ekki fyllilega með sér hvort móðir hins umrædda barns hefur sjálf slík skyldleikatengsl við einhverja sem borið hafa nafnið Gests að hún geti tekið það upp sjálf, og þannig búið til skilyrði til að gefa barni sínu það nafn skv. 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn. Er það enda ekki hlutverk mannanafnanefndar að taka afstöðu til þess þáttar málsins. Ber að leggja rannsókn á því atriði í hendur Þjóðskrár. Til viðbótar bendir mannanafnanefnd á að samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn er eiginnafn foreldris í eignarfalli heimilt sem millinafn. Til að sú heimild yrði nýtt í þessu máli væri skilyrði að faðir barnsins bæri eiginnafnið Gestur. Þennan þátt málsins hefur mannanafnanefnd heldur ekki rannsakað, enda ekki hlutverk hennar. Nefndin telur þó rétt, samhengis vegna, að geta þessarar reglu í úrskurðinum.

Með vísan til framangreinds ber að hafna beiðni um millinafnið Gests.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Gests er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira