Vinna hafin við gerð lagafrumvarps um stjórn veiða á úthafsrækju
Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna væri að hefjast í ráðuneytinu við nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem sérstaklega lýtur að stjórnun veiða á úthafsrækju.
Í júlí 2010 gaf þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veiðar á úthafsrækju frjálsar. Þegar sú ákvörðun var tekin var ekki skorið úr um hvernig skyldi farið með réttindi þeirra sem fram til þessa höfðu ráðið yfir aflahlutdeild í úthafsrækju eða hvaða réttindi menn kynnu að vinna sér inn undir frjálsu veiðunum. Frá því að þessi ákvörðun var tekin hafa veiðar á úthafsrækju aukist miðað við afla áranna áður en veiðar voru gefnar frjálsar. Á sama tíma hefur veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir úthafsrækjustofninn lækkað. Þann 1. Júlí sl. voru veiðarnar stöðvaðar þar sem afli var kominn fram úr ráðgjöf og hefur legið fyrir um nokkurn tíma að unnið væri að tillögum um endurskoðun veiðanna á komandi fiskveiðiári.
Þrjár leiðir hafa verið nefndar sem valkostir þegar kemur að veiðistýringu úthafsrækju á næsta fiskveiðiári;
-
Virkja eldri aflahlutdeildir með því að taka ákvörðun um leyfilegan heildarafla
-
Setja aflahlutdeildir á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja veiðitímabila
-
Fara blandaða leið þar sem litið er til hagsmuna bæði þeirra sem fyrir frjálsu veiðarnar réðu yfir hlutdeildum og þeirra sem veiðarnar hafa stundað undir frjálsa fyrirkomulaginu.
Við úrvinnslu málsins að þeirri ákvarðanatöku sem hér er greint frá hefur m.a. verið stuðst við álit unnið fyrir ráðuneytið af LAND lögmönnum. Þar er m.a. farið yfir að ekki verði séð að ráðherra hafi valdheimild til að setja nýjar aflahlutdeildir eingöngu á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja veiðitímabila. Til slíkrar ráðstöfunar mundi þurfa nýmæli í lögum. Hvað sem því líður er erfitt að horfa fram hjá því að það umhverfi sem skapað var með frjálsum veiðum á úthafsrækju hefur laðað að nýja aðila. Samkvæmt gögnum Fiskistofu hefur um helmingur afla í úthafsrækju á síðustu þremur árum verið veiddur af aðilum sem ekki ráða yfir skráðri aflahlutdeild í tegundinni.
Í því lagafrumvarpi sem ráðherra hyggst mæla fyrir á haustþingi verður mælt fyrir um setningu nýrra aflahlutdeilda í úthafsrækju. Þar verður lagt til að hinar nýju hlutdeildir verði ákveðnar þannig að eldri aflahlutdeildir ráði að 7/10 hlutum en veiðireynsla síðustu þriggja ára að 3/10 hlutum. Ekki er gert ráð fyrir að veiðar við upphaf komandi fiskveiðiárs telji við ákvörðun veiðireynslu en veiðar verða frjálsar, upp að tilteknu magni, þar til að frumvarpið hefur verið samþykkt. Með þessu munu þeir hlutdeildarhafar, sem hafa stundað veiðar síðustu þrjú fiskveiðiár fá að njóta þess, samhliða því að gætt er að atvinnuhagsmunum þeirra aðila sem nýjir hafa komið að veiðum undir frjálsa fyrirkomulaginu. Þessi aðgerð er eingöngu tilkomin vegna þeirra aðstæðna sem fyrrnefnd ákvörðun frá 2010 skapaði og skorts á fyrirmælum og lagasetningu í kjölfarið um hvernig stýringu veiðanna til framtíðar yrði háttað, og er því ekki fordæmisgefandi, enda um einstakt mál að ræða.
Þeim aðilum sem vilja koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið í tilefni af undirbúningi þessa lagafrumvarps er vinsamlega bent á að senda rafbréf á netfangið [email protected]. með efnislínunni: Frumvarp um úthafsrækju.