Innflutningsleyfi vegna sölu á laxahrognum rædd á fundi Sigurðar Inga og aðstoðarráðherra fiskeldismála í Chile
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra átti fund með Pablo Galilea aðstoðarráherra sjávarútvegs og fiskeldismála í Chile. Á fundinum ræddu þeir m.a. innflutningsleyfi fyrir sölu á laxahrognum til Chile en fyrirtækið Stofnfiskur hf. er annar stærsti framleiðandi á lifandi laxahrognum á heimsvísu.
Stofnfiskur hefur á undanförnum árum selt lifandi laxahrogn til allra helstu laxaframleiðenda í hinum ýmsu löndum. Velgengni Stofnfisks byggir á heilbrigði laxastofnanna, góðu sjúkdómaeftirliti og síðast en ekki síst markvissum kynbótum, sem stuðla að góðum vexti og heilbrigði fisksins. Heildarsala Stofnfisks á lifandi laxahrognum til Chile var á síðasta ári um 40 milljón hrogn að verðmæti um 600 milljónir ísl.kr.
Á undanförnum mánuðum hafa yfirvöld í Chile hert reglur um innflutning laxahrogna og hafa nú bannað innflutning. Stofnfiskur er eini framleiðandinn á laxahrognum sem enn fær að selja hrogn til Chile, en sú sala byggir á sérstöku leyfi sem byggir á áhættugreiningu yfirvalda í Chile.
Vegna óvissunar sem upp var komin vegna hertra reglna sjúkdómayfirvalda í Chile skrifaði Sigurðir Ingi Jóhannsson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra yfirvöldum í Chile bréf í júlí sl. Í bréfinu gerði hann m.a. grein fyrir að bann við innflutningi laxahrogna frá Íslandi til Chile væri ekki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindinga um viðskipti, sem bæði löndin væru aðilar að.
Í framhaldi af bréfi Sigurðar Inga til yfirvalda í Chile var ákveðið að halda fund á Íslandi og fjalla um málið og var hann haldinn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu föstudaginn 16. ágúst sl.
Á fundinum fjallaði Gísli Jónsson dýralæknir fisksjúkdóma um stöðu fisksjúkdóma á Íslandi og kom m.a. fram að hvergi væru laxastofnar í eldi jafn heilbrigðir og á Íslandi.
Mr. Carlos Vial, ráðgjafi og fulltrúi kaupenda laxahrogna frá Chile greindi frá því að laxahrogn frá Íslandi hafi reynst mjög vel í eldi og verið laus við alla sjúkdóma.
Mr. Pablo Galilea aðstoðarráherra fjallaði m.a. um reglur og stöðu sjúkdóma í Chile. Í máli hans kom fram að eina erlenda fyrirtækið sem hefði innflutningsleyfi á laxahrognum væri Stofnfiskur. Aðstoðarráðherrann lýsti því yfir í lok fundarins að upplýsingar sem fram hefðu komið á fundinum um góða stöðu sjúkdómamála í íslenskum eldislaxi myndu leiða til þess að yfirvöld í Chile vildu endurskoða leyfismál Stofnfisks og leyfa áframhaldandi viðskipti.
Í lok fundarins bauð Mr. Pablo Galilea aðstoðarráherra Sigurði Inga Jóhannssyni í heimsókn til Chile á næsta ári. Einnig óskaði hann eftir þátttöku íslenskra sjúkdómayfirvalda í vinnufundi um sjúkdómamál í laxeldi.