Launaþróun stjórnenda hjá ríkinu
Laun forstjóra félaga í eigu ríkisins eru svipuð nú og þau voru árið 2010. Á sama tíma hafa laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði hækkað um 20%.
Þetta kemur í ljós þegar skoðuð er þróun launa stjórnenda hjá ríkinu á árunum 2008-2013, annars vegar embættismanna (þ.mt. forstöðumanna ríkisstofnana) og hins vegar forstjóra félaga í eigu ríkisins, og hún borin saman við aðra launþega í landinu.
Hóparnir sem um ræðir heyra undir kjararáð. Í lok árs 2008 og á árinu 2009 sættu margir hópar launalækkun, þar á meðal embættismenn. Laun embættismanna sem heyra undir kjararáð voru lækkuð með lögum nr. 148/2008 á árinu 2009, en hún tók gildi 1. mars það ár. Lækkunin var á bilinu 5% til 15%. Í samræmi við fyrrnefnd lög var launalækkunin færð til baka með ákvörðun kjararáðs 1. október 2011.
Forstjórar félaga í eigu ríkisins færðust undir ákvörðunarvald kjararáðs með lögum nr. 87/2009 og hafa fengið laun samkvæmt ákvörðun kjararáðs frá febrúar 2010. Í hópnum eru alls 29 forstjórar.
Varlega áætlað má gera ráð fyrir að laun forstjóranna hafi lækkað um 15% eftir að þeir færðust undir kjararáð þó vitað sé að laun einstakra aðila hafa verið lækkuð meira. Launin voru endurskoðuð í samræmi við 8. grein laganna þar sem segir að „við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra“.
Frá því að forstjórarnir færðust undir ákvörðunarvald kjararáðs hefur þessi hópur fylgt almennum ákvörðunum ráðsins um hækkun fastra launa. Þau hafa hækkað þrisvar sinnum á tímabilinu; um 4,9% í júní 2011, 3,5% í mars 2012 og 3,25% í mars 2013. Alls nemur hækkunin því 12,1% á árunum 2010-2013. Þessar hækkanir fylgdu hækkunum launa skv. kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Á síðustu mánuðum hefur kjararáð úrskurðað sérstaklega um breytingar á yfirvinnu- og álagsgreiðslum hjá 21 forstjóra og að meðaltali má meta þær sem 4,8% hækkun fyrir þennan hóp.
Frá því að laun forstjóranna voru lækkuð umtalsvert árið 2010 hafa mánaðarlaun þeirra tekið almennri hækkun um 12,1% en heildarlaun hafa hækkað um 16,6% að meðaltali.

Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig launavísitala embættismanna, forstjóra félaga í eigu ríkisins hefur þróast í samanburði við aðra á vinnumarkaði. Ef launavísitölurnar eru settar í 100 í upphafi árs 2008 má sjá að almenna launavísitalan hefur hækkað um 33%.
Forstjórar hjá ríkisfyrirtækjum standa í stað en 20% hækkun hefur orðið á almennum markaði
Ef gert er ráð fyrir að laun forstjóra félaga í eigu ríkisins hafi lækkað að meðaltali um 15% með úrskurði kjararáðs 2010 má gera ráð fyrir að laun þeirra séu svipuð nú og árið 2010. Ætla má að laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði hafi hækkað um rúm 20% á sama tímabili.