Fjölbreytt starfsemi í Landsbókasafni

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn gegnir því tvíþætta hlutverki að vera þjóðbókasafn Íslands og jafnframt bókasafn Háskóla Íslands. Það er varðveislusafn sem tekur við gögnum sem gefin eru út á Íslandi til varðveislu samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Landsbókasafn safnar öllum íslenskum gögnum, varðveitir þau, skráir og flokkar. Það sinnir þjónustu við kennslu og rannsóknarstarfsemi Háskóla Íslands og heldur uppi bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega, stjórnsýslu og rannsókna á Íslandi. Í húsakynnum safnsins, Þjóðarbókhlöðu, er les- og vinnuaðstaða fyrir almenning og fræðimenn, þar sem veittur er greiður aðgangur að safnkostinum.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra kynnti sér starfsemi Landsbókasafnsins nýlega. Starfsemi safnsins er skipt í fjögur svið: Aðföng og skráningar, varðveisla og stafræn endurgerð, miðlun og rafrænn aðgangur, þjónusta og samskipti við HÍ. Að auki eru hefðbundin stoðsvið (rekstur, fjármál, upplýsingatækni o.fl.). Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður tók á móti ráðherra og sviðsstjórar kynntu starfsemi sviðanna. Að lokinni ferð um húsið var fundur um helstu verkefni safnsins og helstu úrlausnarefni, sem blasa við.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður