Hoppa yfir valmynd
4. september 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra beitir sér gegn kennitöluflakki í atvinnurekstri

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að unnið verði að því að jafna samkeppnisstöðu með því að vinna gegn kennitöluflakki. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var ákveðið að Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi forgöngu að því að setja á fót samstarfsvettvang atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innanríkisráðuneytis sem hefur það hlutverk að leggja til leiðir til að sporna við kennitöluflakki. Jafnframt verður þess gætt að hagsmunaaðilar muni koma að vinnunni.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun jafnframt leggja fram frumvarp til breytinga á löggjöf sem ætlað er að tryggja tímanleg skil ársreikninga en skortur á tölfræði um starfsemi fyrirtækja hefur hamlað eðlilegri yfirsýn.

Um nokkurt skeið hefur farið fram skoðun á hlutafélagalöggjöfinni og ársreikningalöggjöfinni með það að markmiði að takmarka kennitöluflakk í atvinnurekstri og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitt þá vinnu.

Ekki liggur fyrir lagaleg skilgreining á „kennitöluflakki“  en mikilvægt er að fyrirhugaðar aðgerðir beinist að því uppræta það sem sannarlega er kennitöluflakk en virki ekki hamlandi fyrir þá sem að standa heiðarlega og rétt að verki.

Með kennitöluflakki er oftast átt við ákveðna misnotkun eigenda í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar. Felst það í stofnun nýs félags í sama atvinnurekstri og það félag sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota til að losa undirliggjandi rekstur undan fjárhagslegum skuldbindingum en viðhalda samt eignum.

Tjónið felst gjarnan í því að félög eru keyrð í gjaldþrot með miklum skuldum í formi skatta, lífeyrissjóðsgjalda og gjalda úr Ábyrgðasjóði launa, svo og við birgja og aðra kröfuhafa, m.a. launþega.

Það þarf varla að fjölyrða um mikilvægi þeirra almennu hagsmuna sem fólgnir eru í því að koma í veg fyrir háttsemi af þeim toga sem jafnan er kölluð kennitöluflakk.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta