Hoppa yfir valmynd
6. september 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Sigurður Ingi heimsækir Reiknistofu fiskmarkaðanna og sjávarútvegsfyrirtæki í Grindavík

Fiskispjall
Fiskispjall
Þessar vikurnar gerir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra víðreist um landið til að hitta að máli fólk sem starfar í sjávarútvegi og kynna sér sjónarmið þess. Í vikunni lá leiðin til Grindavíkur þar sem hann heimsótti Reiknistofu fiskmarkaðanna (RSF) og nokkur sjávarútvegsfyrirtæki.

Í heimsókninni til Reiknistofu fiskmarkaðanna var sýnt hvernig uppboð fer allt fram rafrænt og kaupendur alls staðar af að Íslandi og erlendis frá taka þátt í gegnum netið. Á fundi með forsvarsmönnum RSF lýsti Sigurður Ingi því yfir að lög um fiskmarkaði yrðu endurskoðuð í vetur og óskaði hann eftir samráði við RSF í því ferli. Meðal þess sem þyrfti að ræða og skoða sérstaklega sé eignarhald á fiskmörkuðum. Forsvarsmenn RSF komu á framfæri athugasemdum og hugmyndum sínum sem snúa m.a. að auknu magni fisks á markaði. Þá komu þeir með tillögur sem lúta að endurvigtun og skráningum í aflaskráningarkerfi.

BryggjuspjallÞrátt fyrir erfiðleika á saltfiskmörkuðum sýna fyrirtæki í Grindavík engan bilbug á sér og þar í bæ er lögð mikil áhersla á saltfiskverkun. Þar eru starfandi burðug fyrirtæki, sem eru með starfsstöðvar víðar um landið með hundruð manna í vinnu. Var sérstaklega áhugavert að sjá hversu mikið er lagt upp úr nýsköpun og þróun. Í þessu sambandi má nefna að mikil áhersla er lögð á frekari nýtingu afurða, til dæmis með því að vinna ensím fyrir snyrtivörur, prótín í saltfisk. Þá má nefna nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þurrkun fiskhausa og einkar athyglisverðar tilraunir til að tengja saman ferðaþjónustu og fiskvinnslu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta