Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Sigurður Ingi heimsækir öflug fyrirtæki á Vestfjörðum og setur ráðstefnu um markaðsmál í sjávarútvegi

Ráðherra heimsækir 3X Technology
Ráðherra heimsækir 3X Technology
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra brá sér á norðanverða Vestfirði á föstudaginn. Tilgangurinn var meðal annars að ávarpa og setja ráðstefnu á Ísafirði. Ráðstefnan, sem haldin var í Þróunarsetri Vestfjarða, nefndist „Markaðsmál sjávarútvegs í ljósi rannsókna og þróunar“. Þar var fjallað um rannsóknir og þróun í sjávarútvegi ásamt gæða- og markaðsmálum sjávarútvegs. Sérstök áhersla var lögð á vestfirskan sjávarútveg og samkeppnishæfni.

Ráðherra gafst tækifæri til að heyra í rækjusjómönnum og verkendum, vegna ákvörðunar um að hlutdeildarsetja úthafsrækju.  Sitt sýndist hverjum og allir komu sínum sjónarmiðum á framfæri og  var fundurinn hinn gagnlegasti.

Ráðherra heimsótti 3X Technology ehf., en fyrirtækið verður 20 ára á næsta ári. 3X sérsmíðar lausnir fyrir matvinnslufyrirtæki, aðallega í sjávarútvegi. Fram kom í máli Alberts Högnasonar, eins aðaleiganda fyrirtækisins, að um 90% af framleiðslunni fari á erlendan markað. Sá íslenski hefði á undanförnum árum verið tregur vegna óvissu um hvernig stjórn fiskveiða yrði háttað, en hann sæi nú fram á betri tíma á heimamarkaði. Enda telur hann það grundvallaratriði að hægt sé að þróa og prófa nýjar vörur á heimamarkaði, áður en menn reyni fyrir sér í útlöndum.

Eftir hádegi gafst tími til að setjast niður með forsvarsmönnum Gunnvarar í Hnífsdal, þar sem farið var yfir starfsemi þessa farsæla fyrirtækis og gafst meðal annars tækifæri á að smakka niðursoðna þorsklifur, sem er mikið hnossgæti, og gott dæmi um hversu vel hver fiskur er nýttur af Gunnvararmönnum. En fyrirtækið sér sjálft um framleiðsluna, auk þess sem allir beingarðar og hausar eru þurrkaðir og fluttir út til Nígeríu. Þar fer lítið til spillis. Deginum lauk svo með fundi með stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða.      

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta