Hoppa yfir valmynd
16. september 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsækir fyrirtæki á Norðurlandi

Sútun
Sútun

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti stofnanir, afurðastöðvar og sjávarútvegsfyrirtæki á Norðurlandi í síðasta mánuði,  auk þess að stoppa við á athyglisverðu lífrænu berjabúi.

Byggðastofnun á Sauðárkróki er ein af stofnunum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.  Í heimsókn ráðherra í stofnunina var starfsemin kynnt og farið yfir vinnu sem í gangi er við stefnumótandi byggðaáætlun 2014-2017. Þar leggur ráðherra upp með að áhersla verði lögð á grunnnetið, samgöngur, opinbera þjónustu og atvinnumál í byggðum landsins. Ráðherra heimsótti einnig Hólaskóla og fræddist  sérstaklega um þær deildir sem snúa að málaflokkum ráðuneytisins, fiskeldis- og fiskalíffræðideildina og hestafræðideildina.

Fyrirtækin sem heimsótt voru, hvort sem þau tengjast landbúnaði eða sjávarútvegi, eiga það öll sameiginlegt að vera hátækni matvælaframleiðendur og mikilvægir vinnuveitendur á þeim stöðum sem þau eru staðsett. Í samtölum var meðal annars komið inn á mikilvægi þess að regluverk og eftirlit væri einfalt og skilvirkt - en ekki þykir svo vera í öllum tilvikum! Kostnaður tengdur eftirliti var ræddur og skortur á möguleikum í sumum tilvikum þegar kemur að því að uppfylla þær kröfur sem settar eru. Ráðherra var hvattur til að skoða sérstaklega þessa þætti og gæta að því áður en að nýjar reglur taka gildi að tryggt sé að fyrirtæki, hvar sem þau eru staðsett á landinu, séu í stakk búin til þess að standa undir þeim kröfum sem reglunum fylgja, eða í það minnsta tryggja að þau geti búið sig til þess.  Einnig var minnst á fríverslunarsamninga og mikilvægi þess að horfa til matvælaútflutnings innan þeirra.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á NorðurlandiÁ Norðurlandi er að finna mýmörg dæmi um samstarf vísinda, fyrirtækja og skóla sem skilað hefur árangri í átt að bættri nýtingu afurða. Það er merkilegt að sjá og heyra hvaða árangri þetta samstarf hefur skilað. Þetta á til dæmis við um tilraunir til þess að nýta fitu sem fellur til í sláturhúsum frekar, prótein í fiskvinnslu og hvernig roð og gærur verða að hátískuvöru hjá stóru erlendu tískuhúsunum. Það er mikilvægt að hlúa að þessum hluta framleiðslunnar, fullvinnslunni, og hvernig byggja megi inn hvata til að gera sem mest verðmæti úr öllu hráefni sem til fellur.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta