Hoppa yfir valmynd
27. september 2013 Atvinnuvegaráðuneytið

Veiðigjaldsnefnd falið að gaumgæfa leiðir að útfærslum að álagningu veiðigjalda

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur falið  veiðigjaldsnefnd, sem starfar á grundvelli laga 74/2012, að gaumgæfa leiðir varðandi  álagningu veiðigjalda. Í nefndinni sitja hagfræðingarnir Arndís Ármann Steinþórsdóttir sem leiðir starfið og Daði Már Kristófersson auk viðskiptafræðingsins Jóhanns Sigurjónssonar. Þá hefur verið settur upp annar hópur  sem ætlað er að liðsinna nefndinni eftir þörfum en í honum sitja fulltrúar frá Ríkisskattstjóra og Hagstofunni, lögfræðingur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu auk aðstoðarmanns sjávarútvegsráðherra.

Vinna er nú hafin á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við að kanna leiðir til álagningar á veiðigjöldum til frambúðar og er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Áfram verður byggt á almennu og sérstöku veiðigjaldi, það síðarnefnda er tekið til sérstakrar skoðunar og þá hvernig sú gjaldheimta geti tekið sem mest mið af afkomu fyrirtækja. Lög, sem samþykkt voru í sumar gerðu það að verkum að hægt var að leggja á sérstakt veiðigjald á þessu ári, en voru einungis til eins árs. Því þarf að huga að nýrri lagasetningu.  
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur falið  veiðigjaldsnefnd, sem starfar á grundvelli laga 74/2012, að gaumgæfa leiðir varðandi  álagningu veiðigjalda. Í nefndinni sitja hagfræðingarnir Arndís Ármann Steinþórsdóttir sem leiðir starfið og Daði Már Kristófersson auk viðskiptafræðingsins Jóhanns Sigurjónssonar. Þá hefur verið settur upp annar hópur  sem ætlað er að liðsinna nefndinni eftir þörfum en í honum sitja fulltrúar frá Ríkisskattstjóra og Hagstofunni, lögfræðingur frá ráðuneytinu  auk aðstoðarmanns sjávarútvegsráðherra. Mikilvægt er að í vinnuferlinu verði haft sem víðtækast samráð og að sem flest sjónarmið komi fram því fiskveiðiauðlindin er ekki einkamál þeirra sem hana nýta. Það er ólíklegt að fullkomin sátt náist um veiðigjöld en með samtali og samvinnu er vonast til að sem víðtækust sátt náist að frumvarpi sem síðar í vetur verður lagt fram á Alþingi.

Sjávarútvegur hefur verið, er og verður, ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs. Eitt af mikilvægustu málum núverandi ríkisstjórnar er að koma á framtíðarskipulagi varðandi sjávarútveginn sem verði hvoru tveggja grundvöllur að almennari sátt í þjóðfélaginu og öflugri sókn íslensks sjávarútvegs.

Nútíma sjávarútvegur er gjörbreyttur frá því sem áður var þegar sóknin og magnið voru í aðalhlutverki. Nú gildir að fá sem mest út úr hverju veiddu kílói og margar hliðarafurðir eru hávísindaleg framleiðsla sem selst fyrir hátt verð.
Fyrir þremur áratugum, þegar ljóst var að gengið hafði verið nærri fiskistofnum við Ísland var ákveðið að takmarka sóknina með aflamarkskerfi. Kerfi sem aðrar þjóðir líta nú öfundaraugum enda hefur það tryggt sjálfbærar veiðar á Íslandsmiðum. Þar hefur vísindalegum rökum verið beitt óháð því hvaða ríkisstjórn hefur verið við völd. Hafrannsóknarstofnun gerir tillögu að hámarksveiði og ráðherra ákveður endanlegt aflamark fyrir komandi fiskveiðiár.
Undanfarin ár hefur umræða um gjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni orðið háværari, enda hefur mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum, sérstaklega þeim stærri, gengið afar vel. Því sé ekki nema rétt og sanngjarnt að greitt sé fyrir aðgang að auðlindinni í samræmi við arð þeirra sem hana nýta. Allar útgerðir greiða almennt veiðigjald án tillits til afkomu og undanfarin tvö fiskveiðiár hefur einnig verið lagt á sérstakt veiðigjald sem er tengdara afkomu.

Um fyrirkomulag auðlindagjaldsins, sem svo hefur verið kallað, verður að ríkja sátt því ríkir almannahagsmunir eru í húfi. Með gjaldinu verður almenningi tryggður réttlátur arður af auðlindinni, útgerðum, sjómönnum, vinnslum, og ótölulegum fjölda annarra fyrirtækja sem byggja starfsemi sína með beinum eða óbeinum hætti á sjávarútvegi, er tryggður starfsfriður. Þá er hægt að gera áætlanir til lengri tíma auk þess sem fyrirsjáanleiki tryggir að hægt er að standa við sölusamninga sem er afar mikilvægt í harðnandi heimi alþjóðlegrar samkeppni. Sátt er í raun sigur fyrir alla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta