Hoppa yfir valmynd
3. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðu fólki

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra
Málþingið haldið á Grand Hótel, 3. október 2013.

Góðir gestir.

Fyrst af öllu vil ég þakka þeim sem komið hafa að undirbúningi þessarar ráðstefnu. Efnið sem hér er til umfjöllunar er mikilvægt og málefnið alvarlegt. Kynferðislegt ofbeldi er staðreynd í samfélaginu og því kemur engum á óvart að fatlað fólk verði fyrir því líkt og aðrir. En vandinn ristir mun dýpra en svo. Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um aðstæður fólks með fötlun sem kom út árið 2011 eru dregnar fram sláandi upplýsingar sem sýna að fatlað fólk býr við mun meiri hættu á því að vera beitt ofbeldi en aðrir. Vísað er til þess að í Bandaríkjunum hafi sýnt sig að tilkynningar um ofbeldi þar sem fatlað fólk er þolendur eru á bilinu fjórum til tíu sinnum algengari en hjá ófötluðu fólki. Kynferðislegt ofbeldi er ekki undanskilið, þar er hættan einnig mun meiri.

Ég var ekki búin að vera lengi í starfi ráðherra þegar ég fékk í hendur skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands með niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem stofnunin vann fyrir velferðarráðuneytið. Ég taldi mig vita ýmislegt um ofbeldi og birtingarmyndir þess þar sem ég hef lengi lagt mig fram um að kynna mér þessi mál og hvað sé hægt að gera til að berjast gegn ofbeldi í samfélaginu. Þrátt fyrir það var mér virkilega brugðið þegar ég las niðurstöður rannsóknarinnar og í mínum huga er augljóst að það verður að huga sérstaklega að aðstæðum fatlaðs fólks í þessu tilliti með fyrirbyggjandi aðgerðum og viðeigandi stuðningi.

Fyrir þá sem ekki þekkja til rannsóknar Félagsvísindastofnunar þá tók hún til þrettán fatlaðra kvenna sem rætt var við og höfðu allar orðið fyrir margháttuðu ofbeldi í æsku og á fullorðinsárum. Markmiðið var að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og fjalla um muninn á því ofbeldi sem einstaklingar beita fatlaðar konur annars vegar og stofnanabundnu ofbeldi hins vegar. Einnig var reynt að draga fram við hvers konar aðstæður ofbeldið á sér stað, afleiðingunum sem það hefur og hvernig staða fatlaðra kvenna í samfélaginu tengist hættunni á því að þær verði fyrir ofbeldi.

Síðast en ekki síst fylgja niðurstöðum rannsóknarinnar ábendingar skýrsluhöfunda um aðgerðir til að sporna gegn ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og án efa verða þær til umræðu á ráðstefnunni síðar í dag.

Ofbeldi, hvaða nafni sem það nefnist, felur í sér valdbeitingu, kúgun og undirokun. Gerendur eru líklegastir til að beita þá ofbeldi sem síst geta varið sig og því þarf ekki að koma á óvart að börn, fatlað fólk og aldraðir eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Samfélagið hefur lengi verið meðvitað um ofbeldi gagnvart börnum og nauðsyn þess að berjast gegn því með oddi og egg. Í málefnum barna er fyrir hendi mótuð umgjörð um viðbrögð ef grunur er um vanrækslu eða ofbeldi, þótt vissulega megi alltaf gera betur. Þegar í hlut eiga aldraðir eða fatlað fólk stöndum við verr að vígi, hvort sem við horfum til vitundar samfélagsins um vandann eða aðgerðir til að berjast gegn honum. Þessi mál hafa lengi verið falin og í þagnargildi en nú virðist vakning vera að eiga sér stað. Við eigum að nýta okkur það og ýta undir umræðuna - þótt hún sé erfið - til að svipta hulunni af þessum málum og átta okkur á hvað þarf að gera til að bregðastrétt við og koma í framhaldi í veg fyrir ofbeldið.

Það hafa reyndar átt sér stað ákveðnar úrbætur sem styrkja stöðu fatlaðs fólk og réttindi þeirra með lögum um réttindagæslu sem sett voru árið 2011. Á grundvelli þeirra tóku til starfa réttindagæslumenn fatlaðs fólks í öllum landshlutum. Fatlað fólk getur leitað til réttindagæslumanns með hvaðeina sem varðar réttindi þess, fjármuni og önnur persónuleg mál. Réttindagæslumaður skal veita viðkomandi einstaklingi stuðning og aðstoða hann við að leita réttar síns eftir því sem við á. Einnig er gert ráð fyrir að hver sá sem telur að brotið sé á réttindum fatlaðs einstaklings geti tilkynnt það réttindagæslumanni auk þess sem réttindagæslumaður getur tekið upp mál að eigin frumkvæði. Réttindagæslumaður skal vera sýnilegur og standa fyrir fræðslu fyrir fatlað fólk og þá sem starfa með því. Auk þessa kveða lögin um réttindagæslu á um rétt fatlaðs fólks til persónulegs talsmanns eigi það sjálft erfitt með að gæta hagsmuna sinna. Réttindagæslukerfið er tiltölulega nýtt en það er tvímælalaust góður grunnur að byggja á og mikilvægt að efla það og þróa eftir því sem fram líða stundir. Gleymum heldur ekki samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem unnið er að því að innleiða hér á landi. Hann hefur reynst mikilvægur leiðarvísir og áherslur hans ganga til að mynda eins og rauður þráður í gegnum framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem samþykkt var á Alþingi fyrir rúmu ári.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni. Framundan eru áhugaverð erindi og umfjöllun sem eflaust mun engan láta ósnortinn. Eins og ég sagði í upphafi: Þetta er erfið umræða um mikilvæg mál sem nauðsynlegt er að varpa á skýrara ljósi. Það eru margir þættir sem þarf að líta til í þessu samhengi. Valdefling og notendasamráð tel ég þó vera lykilþátt í því að bæta stöðu og efla réttindi fatlaðs fólks í samfélaginu, samhliða vitundarvakningu sem þarf að beinast að öllu samfélaginu með það að markmiði að vinna gegn fordómum og félagslegri útskúfun.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum