Hoppa yfir valmynd
7. október 2013 Matvælaráðuneytið

Ræða á ráðstefnu á vegum  Samtaka orkusveitarfélaga, 4. október 2013

ATH: Talað orð gildir
Kæru ráðstefnugestir,

Ég fagna því frumkvæði sem Samtök orkusveitarfélaga hafa sýnt með þessari ráðstefnu og það er mér heiður að vera þátttakandi hér og fá að ávarpa ykkur.

Samtök orkusveitarfélaga fagna á næstunni 2ja ára afmæli sínu og er það mín skoðun að þessi félagsskapur sé mikilvæg rödd í þeirri umræðu sem við eigum um orkumál á Íslandi. Alls eru aðildarsveitarfélögin nú orðin 20 talsins og öll hafa þau mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að orku- og auðlindamálum.

Markmið og tilgangur samtaka orkuveitarfélaga er skýr og hafa samtökin komið þeim markmiðum vel á framfæri við stjórnvöld, bæði núverandi og fyrrverandi, og eins og fram kom á fundi mínum með forsvarsmönnum samtakanna í sumar þá eru dyr mínar ávallt opnar til að hlýða á það sem þið hafið fram að færa.

Eins og þið þekkið þá erum við Íslendingar mikillar gæfu aðnjótandi þegar kemur að orkumálum; með alla okkar endurnýjanlegu orku og húshitun frá náttúrunnar hendi.

Ef við horfum á þá 67 virkjunarkosti sem skilgreindir voru í Rammaáætlun, og raðað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk, er ljóst að umtalsverðir möguleikar eru til viðbótar orkuframleiðslu á Íslandi án þess að ganga um of á náttúru landsins. Í þessu sambandi eru sveitarfélögin í ákveðnu lykilhlutverki, þar sem skipulagsvaldið og veiting framkvæmdaleyfa er í ykkar höndum. Með réttu má segja að möguleikar sveitarfélaga til aukinnar orkunýtingar, og þar með atvinnusköpunar og uppbyggingar innan sinna svæða, séu talsverðir ef rétt er á spilunum haldið.

Það er mín almenna skoðun að mikilvægt er að gæta meðalhófs, út frá öllum sjónarhornum, og ekki gefa sér fyrirfram að nýting og vernd geti ekki farið saman.

Ég lít svo á að almennur samhljómur sé í samfélaginu með því markmiði Samtaka orkusveitarfélaga að arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu skiptist með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagsmunaaðilar við orkuvinnslu. Hugtakið „haghafar“ hefur verið notað um þessa aðila, en þeir eru; eigandi auðlindarinnar, orkuframleiðandinn, orkukaupandinn, þjóðin og nærsamfélagið. Fyrirkomulag þessarar skiptingar er að mínu mati eitt af þeim brýnustu verkefnum sem við stöndum frammi fyrir á sviði orku- og auðlindamála.

Hugtakið auðlindarenta eða auðlindaarður hefur talsvert verið í almennri umræðu að undanförnu. Auðlindaarður er sá arður sem til verður vegna úthlutunar sérleyfa til nýtingar á sameiginlegum auðlindum okkar. Hann er birtingarmynd verðmætis auðlindarinnar sjálfrar og stendur því eftir þegar greinin hefur greitt allan rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun fjármuna. Hagsmunir eiganda auðlinda og handhafa sérleyfis til nýtingar fara saman í því að hámarka auðlindaarðinn, og sama á að eiga við um nærsamfélagið. Sem dæmi um auðlindaarð, vegna nýtinga sameiginlegra auðlinda, má nefna tekjur ríkissjóðs af veiðileyfagjaldi og arðgreiðslur Landsvirkjunar til eigenda sinna.

Þegar við horfum til þess hvernig við getum tryggt sanngjarna dreifingu á auðlindaarðinum til áðurnefndra „haghafa“ getur verið fróðlegt að horfa til nágranna okkar í Noregi (eins og Samtök orkusveitarfélaga hafa reyndar sjálf bent á). Í Noregi er lagður á auðlindarentuskattur í raforkugeiranum enda myndast umtalsverð auðlindarenta í norsku vatnsafli. Bent hefur verið á að við þurfum við að búa okkur undir að svipaðar aðstæður skapist hér í auknu mæli á næstu árum. En norska leiðin í orkugeiranum felur líka í sér annað mikilvægt atriði: Þar rennur ákveðinn hluti auðlindarentunnar til nærsamfélagsins og sveitarfélaganna. Það fyrirkomulag er talið mikilvægur liður í að tryggja sátt um orkugeirann auk þess sem viðkomandi svæði bera margvíslegan kostnað og taka á sig það rask sem oft fylgir virkjunum.

Þetta eru því mikilvæg úrlausnarefni sem við í ráðuneytinu, í samstarfi við önnur ráðuneyti (samanber fjármála- og efnahagsráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og innanríkisráðuneytið), munum skoða vandlega á næstunni.

Ýmsar sérhæfðari athugasemdir og ábendingar Samtaka orkusveitarfélaga snúa að lagabálkum sem ekki eru á mínu forræði, svo sem krafan um að lögum um skráningu og mat fasteigna verði breytt þannig að orkumannvirki verði ekki undanþegin frá fasteignamati og greiðslu fasteignagjalda til sveitarfélaga. Engu að síður get ég tekið undir það með Samtökum orkusveitarfélaga að mikilvægt er að ræða þessi álitamál og finna á þeim sanngjarna og réttláta lausn.

Jafnframt vil ég geta þess að til að tryggja aðkomu Samtaka orkusveitarfélaga að stefnumótun og ákvarðanatöku í ráðuneyti mínu þá mun ég sjá til þess að Samtökin fái til umsagnar allar breytingar á lögum og reglum er varða starfsumhverfi orkufyrirtækja og hafi jafnframt aðgang að starfshópum eða nefndum innan þessa málaflokks. Eins og ég nefndi í upphafi er hér um mikilvæga rödd að ræða í umræðu okkar um orkumál.

Kæru ráðstefnugestir,

Ég vil nota tækifærið og koma inn á mikilvægt atriði sem mun verða ofarlega á baugi í vetur í umræðum um orkumál, og eru sveitarfélögin þar í stóru hlutverki. Það er uppbygging flutningskerfisins og álitamálin um raflínur í jörð.

Afhendingaröryggi raforku er ein af undirstöðum í orkumálum Íslands. Nauðsynlegt er að hið miðlæga flutningskerfi raforku hafi næga flutningsgetu til að tryggja örugga afhendingu og til að geta brugðist við aðstæðum sem upp kunna að koma við rekstur kerfisins. Á síðustu árum hefur aflflutningur um flutningskerfið aukist án þess að á sama tíma hafi verið miklar framkvæmdir innan þess. Þessum aukna aflflutningi hefur verið náð með aukinni nýtingu núverandi flutningskerfis. Er nú svo komið að rekstur flutningskerfisins færist stöðugt nær mörkum þess sem það getur með góðu móti annað. Ljóst þykir því að á komandi árum þurfi að styrkja flutningskerfið til að leysa þær flutningstakmarkanir sem í kerfinu eru í dag og til að anna áætluðum vexti í raforkunotkun.

Í nýlegri skýrslu, sem unnin var fyrir Landsnet, kemur fram að ef ekki verði farið í frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi muni það á næstu árum leiða af sér ýmsa erfiðleika hjá raforkunotendum og kosta þjóðfélagið milli 3 og 10 milljarða króna á ári, eða á bilinu 36 – 144 miljarða króna næsta aldarfjórðunginn. Við það ástand er ekki unnt að búa.

Á undanförnum árum jafnframt farið fram umræða um hvort framtíð flutningskerfisins felist í loftlínum eða aukinni notkun jarðstrengja og hvaða viðmið eigi að liggja þar til grundvallar. Notkun jarðstrengja hefur almennt séð farið vaxandi í raforkukerfum nágrannalanda okkar en stefnur þeirra landa eru mjög ólíkar hvað þetta varðar. Tæknilega séð er all nokkur munur á loftlínum og jarðstrengjum og samanburður að mörgu leyti flókið viðfangsefni þar sem ýmis ólík sjónarmið koma við sögu.

Það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að stjórnvöld móti skýra stefnu varðandi lagningu raflína í jörð og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku. Til undirbúnings þeirrar stefnumótunar mun ég á næstu dögum leggja fram á Alþingi, til almennrar umræðu, skýrslu nefndar um raflínur í jörð, sem lokið var við fyrr á þessu ári. Þar sem hér er um að ræða eina af grundvallarstoðum í orkumálum Íslendinga er æskilegt að um framtíð þessara mála ríki almenn sátt og undanfari slíkrar sáttar er að fram fari upplýst og greinargóð umræða, bæði innan Alþingi og í samfélaginu, sem unnt verði að móta framtíðarstefnu á. Markmiðið er því að í framhaldi af umræðu um skýrslu nefndarinnar muni stjórnvöld móta opinbera stefnu að því er snertir lagningu raflína í jörð og framtíðaruppbyggingu raforkukerfisins.

Það liggur í augum uppi að mikilvægt er að fá sjónarmið sveitarfélaga, og þá sérstaklega orkusveitarfélaga, inn í þessa umræðu. Ég vonast því til að geta átt við ykkur gott samstarf um þessa mikilvægu vinnu sem er nú að fara af stað.

Að lokum vil ég endurtaka ánægju mín með það frumkvæði sem Samtök orkusveitarfélaga hafa tekið með því að boða til þessarar ráðstefnu og ég er þess fullviss að við munum eiga gott samstarf á næstu mánuðum og árum í að kljást við þau fjöldamörgu spennandi verkefni sem bíða okkar.

Takk fyrir !



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum