Innanríkisráðherra heimsækir Slysavarnafélagið Landsbjörg
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í dag Slysavarnafélagið Landsbjörg í aðalstöðvar þess við Skógarhlíð í Reykjavík. Þar tóku á móti henni formaður félagsins og fleiri fulltrúar í stjórn félagsins ásamt framkvæmdastjóra og fleiri starfsmönnum.

Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri gerði í upphafi heimsóknarinnar grein fyrir helstu þáttum í starfi félagsins. Fram kom í máli hans að starfsemin er mjög fjölþætt og alls eru 18 þúsund manns skráðir félagsmenn. Þá eru kringum fjögur þúsund manns á útkallslista félagsins víðs vegar um landið og tilbúnir að bregðast við kalli hvenær sem er sólarhrings árið um kring þegar neyðin kallar. Auk þess að reka björgunarsveitir starfa innan vébanda félagsins slysavarnadeildir og unglingadeildir um land allt. Meðal starfsþátta félagsins er rekstur Slysavarnaskóla sjómanna, námskeið í skyndihjálp, ferðamennsku og björgunarskólinn. Auk þess á félagið aðild að vefnum safetravel.is þar sem finna má gagnlegar upplýsingar sem einkum eru ætlaðar erlendum ferðamönnum.
Þá kom fram í máli Harðar Más Harðarsonar, formanns SL, að aukinn fjöldi erlendra ferðamanna hefur skapað félaginu aukin verkefni við aðstoð, leit og björgun og undanfarin ár hefur félagið rekið sérstaka hálendisvakt yfir sumarið þar sem björgunarsveitarfólk er til taks á helstu hálendisvegum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir þakkaði fyrir að fá að koma og kynnast starfsemi Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem hún sagði ómetanlega. Það væri stöðugt þakkarefni hversu öflugt starf félagið ræki og hvernig þúsundir sjálfboðaliða væru jafnan tilbúnar að ganga úr vinnu og halda til leitar og björgunar við hvers kyns aðstæður.
Á myndinni nokkrir starfsmenn og stjórnarmenn með ráðherra. Frá vinstri: Hannes Frímann Sigurðsson, Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri, Páll Ágúst Ásgeirsson, Margrét Laxdal varaformaður, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Hörður Már Harðarson formaður SL, Leonard Birgisson, Þorvaldur Friðrik Hallsson, Guðjón Guðmundsson og Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri björgunar- og slysavarnasviðs.