Orkumálaráðherrar Íslands og Papua Nýju Gíneu funda
Orkumálaráðherrann er hér í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra og mun hann kynna sér sérstaklega hvernig Íslendingar hafa nýtt jarðhita, ekki einvörðungu til raforkuframleiðslu heldur einnig við húshitun, sundlaugar, gróðurhús o.fl. Í þessu samhengi er gaman að geta þess að þrír nemendur frá Papua Nýju Gíneu hafa lokið námi í Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi.
Auk orkumála bar m.a. málefni flugrekstrar og sjávarútvegs á góma. Icelandair hefur verið með starfsemi í Papua Nýju Gíneu undanfarin sjö ár; leigt flugvélar til ríkisflugfélagsins Air Niugini og þjónustað þær auk þess sem oft hafa íslenskar áhafnir flogið vélunum. Þá eru miklir ónýttir möguleikar til fiskveiða og fiskvinnslu í Papua Nýju Gíneu og mun ráðherrann m.a. heimsækja Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, auk þess að kynna sér framleiðslu á íslenskum bátum hjá fyrirtækinu Trefjum.