Hoppa yfir valmynd
29. október 2013 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra um formennskuáætlun Íslands

Forseti,
Fyrir réttum fimm árum kynntu Íslendingar formennskuáætlun sína á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í skugga válegra tíðinda fyrir íslenska þjóð. Sú atburðarás sem leiddi til þess að íslenska bankakerfið hrundi í októberbyrjun 2008 hefur verið rakin af bæði leikum og lærðum og ætti að vera flestum þeim sem hér sitja kunnug. 

,,Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvern veginn, þótt margur efist um það á tímabili“, sagði nóbelsskáldið Halldór Laxness. Margt fór betur á Íslandi á þessu fimm ára tímabili en margur hugði í fyrstu, og hægt - en örugglega - er okkur að takast að snúa dæminu við og sigrast á erfiðleikunum.

Í dag kynnum við á ný formennskuáætlun okkar í Norrænu ráðherranefndinni. Við höfum valið henni yfirskriftina „Gróska og lífskraftur“ og ef til vill má segja að þessi orð lýsi þeirri jákvæðu og bjartsýnu undiröldu sem við viljum gjarnan sjá rísa á Norðurlöndum. Með yfirskriftinni viljum við einnig vísa til hinna raunverulegu verðmæta sem löndin eiga. Þrátt fyrir efnahagsþrengingar undangenginna ára eru Norðurlönd með auðugustu löndum veraldar og frumauðlindir okkar enn á sínum stað: skógarnir, málmarnir, fiskurinn og orkan. Ótalin er sú auðlind sem ein getur skapað ný verðmæti en það er fólkið okkar sem er bæði vel menntað, hugmyndaríkt og hæfileikaríkt. Gróskan og lífskrafturinn blasir við okkur hvar sem litið er og tækifærin bíða þess að við grípum þau. 

Forseti,
Norðurlönd hafa jafnan skipað sér á bekk með fremstu þjóðum heims hvað varðar lífsgæði, hagsæld, velferð fyrir alla og félagslegt öryggi. Og þannig viljum við hafa það áfram. En til þess að svo megi verða þurfum við að hafa metnað og þor til að ná lengra - gera enn betur. Við eigum vissulega gnægð auðlinda, en við getum nýtt þær betur en við gerum nú. 

Með verkefninu um Norræna lífhagkerfið viljum við Íslendingar beina sjónum að lífrænum auðlindum Norðurlanda og betri nýtingu þeirra. Lífrænar afurðir í lofti, á láði og í legi mynda lífmassann, þá auðlind sem hér um ræðir. Í framtíðinni verða allar þjóðir að finna og þróa aðferðir til þess að nýta lífmassann betur en gert er í dag. Við getum til dæmis ekki lengur sætt okkur við að þriðjungur daglegrar matvælaframleiðslu endi sem úrgangur á öskuhaugum veraldar með tilheyrandi álagi á umhverfið. Á sama tíma sveltur stór hluti mannkyns heilu hungri. Mannfjöldaspár segja jafnframt að ef ekki takist að auka framleiðni í matvælaframleiðslu kunni sú stund að renna upp fyrr en margan grunar að jörðin geti ekki brauðfætt íbúa sína, þó svo engu verði sóað.

Biophilia er einnig mikilvægur hluti verkefnisins um norræna lífhagkerfið en það byggir á samnefndu verkefni söngkonunnar Bjarkar þar sem tónlist og tækni eru tvinnuð saman á nýstárlegan hátt til þess að örva skynjun og áhuga barna á náttúrufyrirbærum og eðlisfræði.

Áherslur á grænan hagvöxt og sjálfbæra þróun haldast í hendur í verkefninu um norræna lífhagkerfið. Með eflingu lífhagkerfisins skapast dýrmæt tækifæri til að auka velferð og örva grænan hagvöxt á Norðurlöndum; við höfum allt sem þarf til að vera brautryðjendur í þessum efnum. Þess vegna setjum við verkefni sem þetta á dagskrá norræns samstarfs vegna þess að við teljum mikilvægt að Norðurlönd nái hér forskoti og skari framúr.

Mikil gróska hefur ávallt einkennt norrænt menningarsamstarf og á undanförnum árum hafa skapandi greinar verið í mikilli sókn allstaðar á Norðurlöndum. Frumleiki og sköpunarkraftur eru auðlind sem virkja þarf betur. Á formennskuárinu tefla Íslendingar fram verkefninu um Norræna spilunarlistann – menningarverkefni sem ætlað er að efla norrænan tónlistarmarkað og vekja athygli á norrænni tónlist. Með aðstoð nýjustu tækni munu Norðurlandabúar geta kynnt sér á einum stað það sem er nýtt og spennandi í norrænni tónlist hverju sinni. Markmið verkefnisins er að markaðsetja norræna tónlist bæði innan Norðurlanda og út á við og auka þannig útflutningsmöguleika hennar. Við höfum mikla trú á þessu verkefni sem er til þess fallið að höfða til ungs fólks á Norðurlöndum og auka áhugann á norrænu samstarfi. Vafalítið mun verkefnið eiga sér blómlegt framhaldslíf eftir að norrænum stuðningi við það lýkur.

Það er sammerkt með norrænu ríkjunum að öll leitast þau við að standa vörð um velferðina – ég held að óhætt sé að fullyrða að almenn pólitísk samstaða ríki um mikilvægi þess. Velferðarkerfið og rannsóknir á því hefur um nokkurt skeið verið viðfangsefni norræns samstarfs. Af því hlýst augljós norrænn virðisauki þar sem öll löndin þurfa að takast á við svipaðar áskoranir í velferðarmálum. Skyndilegt kreppuástand á borð við það sem skapaðist í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins er nærtækt dæmi, en annars staðar á Norðurlöndum hafa menn fyrir ekki svo löngu þurft að takast á við keimlíkar aðstæður. Hver er viðnámsþróttur velferðarkerfisins þegar slíkir atburðir eiga sér stað? Hver voru viðbrögð stjórnvalda og hvaða aðgerðir gáfust vel? Hvaða lærdóm getum við dregið af fyrri viðbrögðum í kreppuástandi? Í formennskuverkefninu um norrænu velferðarvaktina viljum við meðal annars leita svara við spurningum sem þessum. Einnig mun verkefnið þróa velferðarvísa til grundvallar stefnumótun og aðgerðum í velferðarmálum á Norðurlöndum.

Við teljum að norræna velferðarvaktin sé jafnframt gott innlegg í það verkefni sem þegar er í gangi um sjálfbæra norræna velferð. Í sömu andrá vil ég einnig nefna að það verður spennandi að sjá tillögur Bo Könberg um nánari samstarfsmöguleika í heilbrigðismálum á næstu 5-10 árum sem mér skilst að ætlunin sé að kynna norrænu heilbrigðisáðherrunum á miðju formennskuári okkar.

Forseti, 
Á formennskuári Íslands verður innleidd ný skipan í vinnunni gegn stjórnsýsluhindrunum á Norðurlöndum. Norræna landamæraráðið tekur til starfa um næstu áramót og leysir af hólmi þá nefnd sem Ole Norrback sendiherra hefur stýrt undanfarin ár. Það kemur í hlut Íslendinga að veita landamæraráðinu forsæti fyrsta árið og teljum við afar mikilvægt að starfsemi þess fari vel af stað. Miklu skiptir að koma í veg fyrir nýjar stjórnsýsluhindranir og fara þær leiðir sem færar eru til að ryðja þeim úr vegi. Ég leyfi mér að vitna aftur í nóbelsskáldið: ,,fyrst er að vilja, afgángurinn er tækni“.

Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við nágrannalönd og – svæði hefur vaxið ört og þróast frá því að fyrst var til þess stofnað í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Á næsta ári taka gildi nýjar leiðbeinandi reglur um samstarf ráðherranefnda við Eistland, Lettland, Litháen, Norðvestur Rússland, sem og það samstarf sem snýr að Hvíta-Rússlandi og Barentssvæðinu. Reglurnar, sem unnar voru í góðri sátt og samvinnu allra hlutaðeigandi aðila, ná frá árinu 2014 án þess að tiltekið sé hvenær þær falla úr gildi. 

Vestnorrænt samstarf og samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við nágranna í vestri hefur ávallt skipt okkur Íslendinga miklu máli og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að það sæki rösklega fram. Á formennskuári okkar mun fara fram endurskoðun á norðurskautsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar en málefni norðurskautsins eru nú meðal þeirra mála sem efst eru á baugi í umræðunni á alþjóðavettvangi. Norðurlönd hafa öll gert sér áætlanir um málefni norðurslóða og eðlilegt að til þeirra verði litið við gerð hinnar nýju áætlunar. 

Almennt séð vekur norrænt samstarf athygli langt út fyrir landamæri Norðurlanda og margir vilja eiga við okkur samvinnu og kynna sér starfshætti okkar. Slíkt ber að sjálfsögðu að skoða hverju sinni með opnum hug og með meginregluna um norrænan virðisauka að leiðarljósi.

Íslendingar taka við formennsku á þeim tímapunkti að norræn fjárlög eru skorin niður um fimm prósent. Íslendingar eru ekki ókunnugir niðurskurði og hafa þurft að forgangsraða og velta nánast hverri krónu fyrir sér í fjárlagagerð undanfarinna ára. Ég vil hins vegar taka fram að það var ekki forgangsmál Íslands að draga úr framlögum til Norrænu ráðherranefndarinnar. Það verður því sérstök áskorun fyrir Ísland á næsta ári að fylgja því eftir að stakkur verði sniðinn eftir vexti.

Forseti,
Í framtíðinni vil ég sjá norrænt samstarf öflugt og að stoðir þess verði enn styrkari en nú er. Samstarfið er síkvikt og hefur þann hæfileika að endurnýja sig í takt við samfélagsbreytingar og pólitískar áherslur í löndunum. Ríkisstjórn Íslands leggur mikla áherslu á norrænt samstarf og ráðherrar í ríkisstjórn Íslands munu á næsta ári taka við forsæti hver í sinni ráðherranefnd. Allir sem taka þátt í stjórnmálum vita að þeir sem nýta ekki rétt sinn til þess að sitja við borð þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar geta ekki vænst þess að hafa áhrif á gang mála. Ísland leggur mikið upp úr því að vel verði mætt á norræna ráðherrafundi á næsta ári. 

Samstarf okkar er einstakt á svo margan hátt, stöndum vörð um það og gefum því þann forgang sem það á skilið. 

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum