Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2013 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt og betra húsnæði fundið fyrir starfsemi Barnahúss

Barnahús
Barnahús

Tekin hefur verið ákvörðun um kaup ríkisins á húsnæði fyrir starfsemi Barnahúss sem Barnaverndarstofa rekur. Kaupverð hússins er 75 milljónir króna. Ríkiskaup auglýstu eftir húsnæði til leigu eða kaups fyrir starfsemina í byrjun september síðastliðnum og bárust sjö tilboð. Niðurstaða hagkvæmnimats var sú að hagstæðara væri fyrir ríkissjóð að kaupa húsið fremur en að leigja. 

Húsið er 387 fermetrar að stærð og á tveimur hæðum. Aðgengi að því er gott og stutt út á stofnbrautir. Húsið er í góðu ástandi og vel við haldið og þótt gera þurfi á því einhverjar breytingar til að laga það að fyrirhugaðri starfsemi uppfyllir það allar kröfur sem gerðar voru til húsnæðis Barnahúss samkvæmt auglýsingu.

Húsið verður afhent í byrjun desember næstkomandi og þá verður hafist handa við þær breytingar sem nauðsynlegar eru áður en Barnahús tekur þar til starfa.

Núverandi húsnæði Barnahúss var orðið of þröngt fyrir starfsemina þar sem brýnt var orðið að fjölga starfsfólki og bæta aðstæður. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist innilega glöð og þakklát fyrir að þetta mál sé nú komið í höfn: „Starfið sem fram fer í Barnahúsi er svo mikilvægt og verkefnin slík að við verðum að sjá til þess að aðbúnaður barna sem þangað leita og starfsfólksins sem vinnur við þessi erfiðu mál sé eins og best verður á kosið.

Í Barnahúsi fara fram skýrslutökur fyrir dómi að beiðni dómara þegar lögregla fer með rannsókn máls, könnunarviðtöl að beiðni barnaverndarnefnda ef þörf er á þegar ekki er óskað eftir lögreglurannsókn, sérhæfð greining til að meta hugsanlegar afleiðingar kynferðisofbeldisins á barnið og fjölskyldu þess og meðferð. Á vegum Barnahúss fer einnig fram ráðgjöf og fræðsla með leiðbeiningum til þeirra sem þarfnast upplýsinga vegna gruns um kynferðisofbeldi. Í Barnahúsi er einnig aðstaða fyrir læknisskoðun.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira